Óli björn í snatti fyrir morgunblaðið

( Alþingismaðurinn Óli Björn Kárason birti grein í Morgunblaðinu fyrr í vikunni þar sem hann fjallar í löngu máli um ósanngjarna samkeppni í fjölmiðlarekstri á Íslandi. Hann stillir Ríkisútvarpinu upp sem sökudólg í því efni og bendir á að Alþingi geti gert samkeppnisstöðuna sanngjarnari með því að breyta reglum um álagningu virðisaukaskatts.

 

Eftir að hafa fjasað um ójafnan leik og ósanngjarna samkeppnisstöðu, kemur hann með tillögu sína til úrbóta: Hann vill afnema virðisaukaskatt. Vill hann þá afnema virðisaukaskatt af öllum fjölmiðlum til að tryggja raunverulega aukna sanngirni og jafnan leik?

Nei, þingmaðurinn leggur það ekki til. Það þarf bara að jafna samkeppnisstöðuna hjá sumum en alls ekki öllum. Sumir þurfa að vera jafnari en aðrir.

 

Um hagsmuni hverra skildi þingmaðurinn þá vera að hugsa? Jú, hann vill afnema viðrisaukaskatt af ÁSKRIFTUM prentmiðla, ljósvakamiðla og netmiðla. Langflestir fjölmiðlar lifa á sölu auglýsinga og til þess að jafna samkeppnisstöðuna þyrfti að afnema allan virðisaukaskatt af fjölmiðlastarfsemi, jafnt af auglýsingasölu, áskriftum og lausasölu. En Óli Björn leggur það ekki til. Hann er ekki að leggja til bætta samkeppnisstöðu fjölmiðla almennt, heldur einungis valinna fjölmiðla. Hvaða fjölmiðlar skyldu nú njóta góðs af afnámi virðisaukaskatts af áskriftum?

 

Þar er fyrst og fremst um Morgunblaðið að ræða varðandi prentmiðla og Stöð 2 vegna áskrifta ljósvakamiðla. Áskriftir netmiðla eru hverfandi að umfangi. Stöð 2 er eina sjónvarpsstöðin sem selur áskriftir. Aðrar sjónvarpsstöðvar á Íslandi selja ekki áskriftir. Morgunblaðinu er einkum dreift í áskrift. Lausasala er lítil. Stundin og DV eru að mestu seld í lausasölu og dreifing annarra prentmiðla er hverfandi.

 

Sanngirnisútspil þingmannsins nær því einkum til tveggja fjölmiðla en alls ekki annarra. Það þarf að bæta samkeppnisstöðu og auka sanngirni í rekstrarumhverfi þessara tveggja en ekki allra hinna. Furðulegt er að vilja gera greinarmun á sölu blaða í áskrift og lausasölu því engin rök eru fyrir því. – Ekki nema að það nægi sem rök að Morgunblaðið skuli einkum byggja dreifingu sína á áskriftum á meðan önnur blöð seljast helst í lausasölu.

 

Vilji menn raunverulega gera samkeppnisstöðu fjölmiðla sanngjarna og eðlilega, þá þarf að afnema allan virðisaukaskatt af öllum rekstri fjölmiðla. Þá fyrst yrði samkeppnisstaðan betri og jafnari. Maður afnemur ekki ranglætið með því að innleiða nýja tegund ranglætis eins og Óli Björn Kárason leggur hér til.

 

Þingmaðurinn er hér augljóslega í grímulausri sendiferð fyrir eigendur Morgunblaðsins, sjálfa sægreifana. Það þarf svo sem ekkert að koma á óvart. Það eru engin rök fyrir tillögum hans. Einungis hagsmunagæsla fyrir útvalda. Þannig er Sjálfstæðisflokkurinn því miður orðinn í allt of mörgum efnum.

 

Því verður ekki trúað á forsætisráðherra Vinstri grænna og þingflokk þeirra að þjónkun af þessu tagi verði látin eftir handlöngurum íhaldsins og Morgunblaðsins á Alþingi.

 

Rtá.