Olga Steinunn Weywadt Stefánsdóttir lést í byrjun júlí eftir erfiða baráttu við krabbamein. Olga, sem var aðeins 44 ára gömul þegar hún lést lét efir sig eiginmann og þrjú börn.
Fyrrum landsliðskonur í fótbolta, Ásta Árnadóttir og Guðlaug Jónsdóttir hafa undanfarin ár staðið að styrktarmóti og í ár munu þær styrkja fjölskyldu Steinunnar. Mótið fer fram þann 28. desember í Egilshöll.
Olga var opin með sjúkdóm sinn og ræddi hún um brjóstakrabbameinið meðal annars í Vikunni árið 2017. Þar sagði Olga meðal annars: „Tilhugsunin um að missa brjóstið var mér í fyrstu mjög erfið. Mér fannst ég hafa misst kvenleika. Brjóstin gera okkur að konum, skilja okkur frá karlmönnum. En þegar brjóstið var farið var ég í sjálfu sér bara fegin. Ánægð með að nú var meinið farið,“ sagði Olga.
Mein Olgu greindist árið 2013 og fór hún í lyfjameðferð, brjóstnám og geislameðferð í kjölfarið. Árið 2015 greindist Olga svo aftur með krabbamein en þá voru komin meinvörp í lifur, hrygg og mjöðm. Það mein var ólæknandi og aðeins hægt að halda því í skefjum með hormónameðferð og lyfjagjöf.
Í viðtalinu við Vikuna sýndi Olga ör sitt og sat fyrir á forsíðunni. Hún ákvað að fara ekki í uppbyggingu á brjóstinu eftir skurðinn heldur að fá sér húðflúr yfir örið.
„Ég skammast mín ekkert fyrir þetta og þessi reynsla sem ég hef er orðin svo stór hluti af mér og þeirri persónu sem ég er í dag. Ég veit að það er mikið mál fyrir margar konur í sömu stöðu að fara í sund. Mér finnst það allt í lagi og ef einhver krakki stendur og horfir eða spyr hvað hafi gerst, svara ég bara: „Brjóstið mitt var veikt og þess vegna þurfti að taka það.“ Fyrir flest börn er það nóg og þau segja: „Já, er það. Mamma réttu mér sjampóið.““
Olgu fannst mikilvægt að ræða veikindi sín opinberlega og velti hún því einnig fyrir sér hvernig hún gæti tekið dauðann í sátt. Sagðist hún auðvitað ekki sætta sig við hann og var hún hrædd en vildi samt sem áður geta lifað góðu lífi áður en hún færi.
Styrkarreikningur hefur verið stofnaður fyrir fjölskyldu Olgu og fyrir þá sem vilja styrkja þau geta séð upplýsingarnar hér fyrir neðan:
Reikningur: 0111-26-702209, kennitala 2209715979.