Eitt stærsta prinsipp málið sem Alþingi fjallar nú um er ótímabundin úthlutun aflahlutdeildar í makríl. Málið er stórt í sniðum fyrir þá sök að nú er verið að úthluta aflahlutdeild í fyrsta sinn í nýrri tegund.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra lagði á dögunum fram tillögu að nýju auðlindaákvæði í stjórnarskrá. Það felur ekki í sér neinar breytingar á ríkjandi skipan mála en heldur opnum möguleika á að tillögur auðlindanefndar Jóhannesar Nordal um gjald fyrir tímabundin afnot verði ákveðið í almennri löggjöf.
VG tekur forystu gegn því að gera þjóðareignina virka
Makrílfrumvarp ríkisstjórnarinnar er því endanleg og formleg staðfesting á því að VG hafnar þeirri hugmyndafræðilegu nálgun auðlindanefndar sem allir flokkar voru sammála um á sínum tíma. VG er að kúvenda í einu stærsta prinsipp máli íslenskra stjórnmála síðustu tvo áratugi. Að því leyti markar makrílfrumvarpið þáttaskil.
Ágreiningurinn snýst um tvennt: Í fyrsta lagi hvort úthlutun aflahlutdeildar eigi að vera tímabundin eða ótímabundin. Í öðru lagi hvort greiða eigi fyrir verðmæti veiðiréttarins í tiltekinn tíma eins og auðlindanefnd lagði til eða hvort leggja eigi auka tekjuskatt á útgerðina og verðlauna menn fyrir lélegan rekstur, sem er hugmyndafræði ríkisstjórnarinnar.
Aðferðin við skattlagninguna er mikilvæg og hefur almenna þjóðhagslega þýðingu. Skattlagning tímabundinna heimilda getur bæði gerst á markaði og eins með því að lögfesta fast gjald fyrir hverja einingu í aflahlutdeildinni. Auka tekjuskattur stríðir í sjálfu sér ekki gegn tímabindingu þótt sú aðferð sé þjóðhagslega óhagkvæm og geti tæplega talist greiðsla fyrir aðgang að auðlind.
Óvissu undirorpið hvort unnt verður að festa þjóðareignina í sessi síðar
En langstærsta ágreiningsefnið snýst um það prinsipp hvort veiðirétturinn á að vera ótímabundinn eða tímabundinn, til dæmis í tuttugu eða tuttugu og fimm ár. Stóra breytingin í íslenskri pólitík er sú að VG er nú forystuflokkurinn gegn tímabundinni aflahlutdeild.
Makrílfrumvarpið er ekki sakleysislegt sjálfsafgreiðslufrumvarp. Tímabundnar aflaheimildir eru satt best að segja forsenda þess að unnt sé að tala um þjóðareign í raun.
Hætt er við að réttarstaða ótímabundinna aflaheimilda styrkist eftir því sem tíminn líður og Alþingi tekur ekki af skarið. Tillaga um auðlindaákvæði í stjórnarskrá, sem allir eru sammála um að breytir ekki ríkjandi ástandi, er væntanlega veikari en skýrt stjórnarskrárákvæði um atvinnuréttindi.
Andstaða VG gegn virkum lagaákvæðum til að tryggja þjóðareign með tímabundinni aflahlutdeild virðist vera afgerandi og rótföst. Líklegra er að í frjálslyndari armi Sjálfstæðisflokksins megi finna skilning á því að tímabundin aflahlutdeild sé jafnt í hag útgerða sem þjóðarinnar.
Staðan er sú að hugsanlega verður búið að festa ótímabundna aflahlutdeild svo í sessi að óvissu gæti verið undirorpið hvort unnt verði að gera breytingar á næsta kjörtímabili. Makrílfrumvarpið er því ekkert smámál.
Sigurður Ingi þarf sterkari stuðning í könnunum til að ná fram málamiðlunum
Framsókn hefur verið fylgjandi tímabundinni aflahlutdeild. Síðast fyrir tveimur árum kynnti flokkurinn útfært og vandað frumvarp um það efni. Og enginn efast um að Framsókn ber hag útgerðarinnar fyrir brjósti.
Vandinn er að Framsókn hefur svo lítil áhrif í stjórnarsamstarfinu að hún getur ekki knúið fram málamiðlanir. Og Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki einu sinni tilefni til að hugsa um málamiðlun þegar VG tekur svo einarða prinsipp afstöðu gegn og Framsókn er í svo veikri stöðu.
Ef Framsókn stæði sterkt í skoðanakönnunum er allt eins líklegt að hún hefði getað knúið fram málamiðlun sem breið samstaða hefði getað tekist um. Hugsanlega með því að halda gjaldtökunni óbreyttri en lögfesta tímabundna aflahlutdeild í makrílstofninum.
Sigurður Ingi Jóhannsson er af þeirri stærðargráðu í pólitík að hann hefði verið líklegur til að sýna bæði vilja og getu til að ná slíku fram ef flokkurinn hefði meira vægi. Óneitanlega væri það líka í betra samræmi við stöðu Framsóknar á miðjunni.
Þegar öllu er á botninn hvolft og í ljósi allra aðstæðna má því segja að það sé ólán að Framsókn skuli ekki vera áhrifaríkari í þessu máli en raun ber vitni.