Ólafur ragnar og íslandsklukkan

 

Ljóst er eftir viðtal Sigurjóns M. Egilssonar á Bylgjunni við Ólaf Ragnar Grímsson, forseta Íslands í morgun, að það eru a.m.k. 50% líkur á að gamli maðurinn fari fram, enn eina ferðina. Hann ætlar samt ekki að segja frá ákvörðun sinni fyrr en 1. janúar næstkomandi, í nýársávarpi.

Fram kom í Sprengisandsviðtalinu að ÓRG styður núverandi ríkisstjórn nokkuð eindregið. Hann gerði við sama tækifæri lítið úr fyrri ríkisstjórn og þeim stjórnmálamanni sem 43% þjóðarinnar sögðu í könnun fyrir skemmstu að hefði verið besti forsætisráðherra sögunnar, á erfiðum og fordæmalausum tímum. Ummæli forsetans hafa þegar orðið tilefni ýfinga á samfélagsmiðlum. Þannig er það jafnan þegar tímavörðurinn, álitsgjafinn og valdamaðurinn Ólafur Ragnar tekur til máls.

Ef ÓRG ætlar fram enn eina ferðina næsta ár gæti hægra fólk og þeir sem vilja ekki breytingar valið að kjósa taktískt með því að fylkja sér saman um ÓRG, ef ekki kemur annar betri fram úr þeirra eigin röðum. Jafnvel þótt ÓRG hafi framan af sagst sósíalisti virðist sem aukin völd hafi umpólað fyrri gildum hans, allt frá því að hann hlaut kosningu sem forseti árið 1996. Hlýtt er líka milli hans og Davíðs Oddssonar og það kann að skipta máli fyrir þá sem enn líta á Davíð sem leiðtoga lífsins. Hægri menn munu síst af öllu vilja að fram komi margir kandídatar úr þeirra eigin röðum sem sprengi fylgi þeirra í margar minni flísar og sá er styrkur Ólafs nú í stöðunni.

Stóru spurningarnar að loknu viðtalinu í morgun eru einkum tvær fyrir „píratafylgið“, þann hluta fólks sem krefst aukins lýðræðis og breytinga.

A) Hvaða nýju kandídata hyggjast þeir senda fram á vígvöllinn og hvenær?

B) Ætla breytingasinnar að leyfa Ólafi Ragnari Grímssyni að halda öðrum hugsanlegum frambjóðendum í gíslingu fram að áramótum?

Það verður fróðlegt að sjá hvort Ísland þeirra sem kenna sig við umbætur láti það óáreitt að tímavörðurinn Ólafur Ragnar Grímsson fái áfram að geyma skeiðklukku samfélagsins, sjálfa Íslandsklukkuna, í eigin vasa. Ein spurning læðist til viðbótar að manni, sumsé hvort ákvörðun forseta kynni að verða önnur um áramótin ef fram kæmi á næstu vikum öflugur kandídat, sem meirihluti þjóðarinnar gæti hugsað sér að fylkja sér saman um.

Hver er sú kona? Hver er sá maður?

Leitin hefst ekki af neinni alvöru á meðan Ólafur Ragnar Grímsson stýrir umræðunni einsamall og slær úr og í - eins og hann er þekktastur fyrir...