Frá því Ólafur Ragnar lét af embætti forseta fyrir rúmum tveimur árum hefur hann lítið komið fram í fjölmiðlum fyrr en allt í einu upp á síðkastið. Það er engin tilviljun.
Þau skref sem Ólafur Ragnar tekur markast yfirleitt ekki af tilviljunum. Þau eru þaulskipulögð og hluti af fyrirfram hugsuðu plotti.
Síðustu tvö árin hefur hann komið fram í fjölmiðlum einu sinni á ári vegna Artic Cirkel fundanna sem hann leiðir. Þá hefur ljósið beinst að honum í tvo daga en ekki lengur. Nú er komið að þessum fundum að nýju en að auki hefur Ólafur verið að minna á sig að undanförnu meira en verið hefur síðustu tvö árin.
Fyrst reyndi hann að gera mikið úr því að hann hefur afhent Þjóðskjalasafninu mikið af persónulegum gögnum frá 20 ára forsetaferli sínum. Hann komst aðeins í fréttir út af þessu. Þá fór hann í langt viðtal í sjónvarpi Símans sem gekk út á að segja okkur hve mikið hann hafi fórnað sér fyrir þjóðina og bjargað okkur út úr hruninu og Icesave alveg einn og sjálfur. Hann trúir því að hann hafi bjargað þjóðinni úr klóm vondra hrægammasjóða, vondra erlendra kröfuhafa, vondrar ríkisstjórnar gamalla vina hans og vonda fólksins á Alþingi. Þessu öllu eigum við að trúa.
Svo birtist Ólafur Ragnar núna í fjölmiðlum og tilkynnir þjóðinni að best sé fyrir hana að standa utan við ESB og halda í krónuna, minnsta myntkerfi í heimi, örmynt sem blaktir eins og strá í vindi. Þegar Ólafur Ragnar ávarpar alþjóðlegar ráðstefnur þá er hann mestur allra alþjóðasinna en þegar hann talar við okkur hérna heima er hann einangrunarsinni!
Er einhver leið að botna í þessu?
Nei. En Ólafur Ragnar hefur heldur aldrei verið auðlesinn enda kafbátur af dýrustu gerð.
Vitað er að Ólafur Ragnar Grímsson á aðeins eftir að uppfylla einn stóran draum á pólitíska sviðinu. Hann dreymir um að verða forsætisráðherra Íslands. Nú er hann farinn að lesa stöðuna þannig að ríkisstjórnin falli í vetur eftir gríðarleg átök á vinnumarkaði og uppgjöf núverandi stjórnarflokka.
Þá væri mögulegt að mynda utanþingsstjórn til að freista þess að greiða úr því neyðarástandi sem þá gæti skapast. Einboðið væri að fela Ólafi Ragnari að leiða slíka stjórn.
Þar með rættist hinn langþráði draumur plottarans mikla.
Rtá.