Á vefsíðu Forseta Íslands kemur fram að Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, og forráðamenn Kaupfélags Skagfirðinga hafi nýverið átt fund á Bessastöðum. Fyrirsögnin á atburðinum í viðburðaskrá forsetaembættisins er „Stjórnendur Kaupfélags Skagfirðinga“. Æðsti stjórnandi KS er kaupfélagsstjórinn Þórólfur Gíslason sem nefndur hefur verið guðfaðir Gunnars Braga utanríkisráðherra.
Um fundinn segir: „Forseti tekur á móti stjórnarmönnum og öðrum stjórnendum Kaupfélags Skagfirðinga og ræðir við þá um þátt kaupfélagsins í atvinnulífi og byggðarþróun í Skagafirði sem og stöðu landsbyggðarinnar og tækifæri Íslendinga á komandi tímum.“
Það er gott ef eyru forseta eru opin fyrir skoðunum ólíkra einstaklinga og hópa. En það er vonandi þannig að forseti fundi ekki bara með jámönnum. Þar sem Ólafur Ragnar hefur gert forsetaembættið að harðvítugu pólitísku átakaembætti er full ástæða til að fylgjast vel með því hverja hann hittir og hverja ekki.
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra hefur haft sterkt bakland í Kaupfélagi Skagfirðinga. Hann er fyrsti þingmaður Norðvesturkjördæmis og starfaði á Sauðárkróki áður en hann varð þingmaður og svo ráðherra. Áherslur forseta, utanríkisráðherra og KS hafa farið saman um nokkurt skeið. Utanríkisráðherra sleit einhliða með einu bréfi aðildartengingu Íslands við ESB fyrr á þessu ári.
Minnast má þess að tillaga kom þá fram úr þingheimi að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis skoðaði sérstaklegai hvort Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands hefði lagt á ráðin um að taka ESB-umsóknina af dagskrá með þeim hætti sem utanríkisráðherra gerði án aðkomu þings og þjóðar. Var haft á orði að stjórnskipun landsins væri í uppnámi, hvort framkvæmdavaldið væri bundið af ályktunum þingsins eða ekki?
ESB-slitin voru í samræmi við hagsmuni sem KS hefur talað fyrir. Einnig má minna á embætti kjörræðismanns Rússa sem stofnað var í fyrra en því gegnir einn yfirmanna KS á Sauðárkróki.
Ólafur Ragnar hefur talað fyrir að fullveldi íslensku þjóðarinnar sé stefnt í hættu með aðild að ESB. Ekki er hægt að útiloka að sú skoðun sé byggð á því að hann hafi hagsmuni af henni. Það eru svo margar spurningar alltaf í kringum forseta Íslands. Við vitum ekki einu sinni hvort hann fer fram enn eina ferðina en ef hann ætlar sér það munar hann mikið um stuðning úr ýmsum valdahópum sem jafnframt eiga fé til að tryggja áfram óbreytt ástand.
Í ljósi þessara spurninga allra vekur fundur KS og forseta athygli.