Ólafur Darri Ólafsson og eiginkona hans, Lovísa Ósk Gunnarsdóttir, hafa sett raðhús sitt í Norðlingaholti á sölu. Um er að ræða 227 fermetra raðhús á rólegum stað í jaðri Norðlingaholts. Ásett verð er 91,9 milljónir króna en ekki liggur fyrir hvort hjónin ætli að færa sig um set í hverfinu.
Smartland greindi fyrst frá.
Á fasteignavef Mbl.is kemur fram að Rut Káradóttir hafi komið að hönnun og efnisvali. Þriggja metra lofthæð er á efri hæð hússins og vandaðar innréttingar. Inn af hjónaherberginu er fimm fermetra fataherbergi með stórum fataskápum. Gólfsíðir gluggar eru í húsinu og er meðal annars útgengt á 18 fermetra hellulagðar svalir.
Fimm svefnherbergi eru í húsinu og tvö baðherbergi. Húsið er byggt árið 2010.