Samkvæmt grein sem birtist á Kvennablaðinu kemur fram að laun formanns VR hækkuðu um 43,5% á tveggja ára tímabili.
Í yfirlýsingu frá launanefnd VR sem birt var á heimasíðu félagsins í gær (1. sept 2016) kemur fram: “Félagið hefur lagt áherslu á markaðslaun og að laun endurspegli vinnuframlag, hæfni, menntun og færni sem og þá ábyrgð sem starfinu fylgir.”
Í yfirlýsingu frá formanni VR fyrr á árinu kemur fram: “Launaþróun æðstu stjórnenda fyrirtækja á að vera í samræmi við almenna launaþróun á vinnumarkaði, að mati VR”.
Þessar yfirlýsingar eru athyglisverðar því launanefnd VR sem semur við formann VR segir að félagið hafi lagt áherslu á markaðslaun meðan formaður VR sem er æðsti stjórnandi félagsins og semur jafnframt um sín laun við launanefnd VR segir að launaþróun æðstu stjórnenda eigi að vera í samræmi við almenna launaþróun. Á almenn launaþróun æðstu stjórnenda þá við um alla aðra en formann VR?
Formaður VR hefur gagnrýnt m.a. laun forstjóra í Kauphöll Íslands og vakna upp spurningar þessu tengdu. Samkvæmt yfirlýsingu frá launanefnd félagsins hefur félagið lagt áherslu á markaðslaun þar sem m.a. þarf að meta vinnuframlag, hæfni, menntun og færni sem og þá ábyrgð sem fylgir hverju starfi. Getur verið að laun þeirra sem formaður VR hefur gagnrýnt hvað mest séu of lág?
Laun formanns VR samvæmt síðasta tekjublaði Frjálsar verslunar voru rúm 1,4 milljónir og samkvæmt ársreikningi VR 2016 voru sjóðir félagsins um 10 milljarðar. Ef bara er horft til eigna þeirra fyrirtækja sem eru á Kauphöll þá eru þær umtalsvert stærri og meiri en sjóðir VR. Hvað má forstjóri fyrirtækis sem er með meiri eignir en VR, veltir meiru en VR, hefur fleiri starfsmenn í vinnu vera með í laun?
Ólafía B. Rafnsdóttir kann ýmisslegt fyrir sér. Hún var meðal annars kosningastjóri hjá Ólafi Ragnari Grímssyni, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur og Árna Páli Árnasyni meðan vindar blésu með þeim. Hún kom skyndilega fram á sviðið á vettvangi VR, bauð sig fram gegn sitjandi formanni og felldi hann. Það var hraustlega gert. Ólafía sýnir dómgreindarleysi með því að láta hækka laun sín um tugi prósenta umfram það sem launþegar sem hún semur fyrir fá í sinn hlut. Þetta gæti orðið henni að falli þó síðar verði. Geymt en ekki gleymt meðal margra félagsmanna VR sem eru ekki ofsælir af launum sínum. Þá hefur Ólafía ekki hikað við að stíga fram og gagnrýnt laun yfirmanna fyrirtækja og lífeyrissjóða á Íslandi, talað um ofurlaun og ekki sparað stóru orðin.
Í ljósi þess hvernig hún hefur hagað sínum strfskjörum, þá heitir það að kasta steinum úr glerhúsi. Fróðlegt verður að sjá viðbrögð almennra félagsmanna VR við þessu.