Ólafía hækkar margfallt á við vr-fólkið

Samkvæmt tekjublaði Frjálsrar verslunar hafa tekjur Ólafíu B. Rafnsdóttur, formanns VR, hækkað um 45% milli ára. Hún var með 968 þús.kr. á mánuði árið 2014 en fór í  1.407 þúsund kr. á mánuði í fyrra. Það samsvarar 45% hækkun sem er langt umfram það sem hún samdi um fyrir skjólstæðinga sína í VR.

Mbl.is fjallar um þetta í dag. Þar kemur einnig fram að tekjur Gylfa Arnbjörnssonar, forseta ASÍ, hækkuðu einungis um 4% milli ára, tekjur formanns Kennarasambandsins hækkuðu um 6% og formanns BSRB um 9%.

Þannig hefur formaður VR náð til sín margfaldri hækkun umfram aðra mikilvæga verkalýðsleiðtoga. Tekjuhækkun hennar er ekki í neinum takti við annað.

Þetta er mjög merkilegt í ljósi þess að ekki er langt síðan Ólafía B. Rafnsdóttir, formaður VR, sá ástæðu til að fara í fjölmiðla til að hneykslast á því að tekjur framkvæmdastjóra Lífeyrissjóðs verslunarmanna höfðu hækkað um tugi prósenta á 7 árum. En tekjur Ólafíu hækkuðu um 45% á aðeins EINU ári.

Óhætt er að segja að með því hafi formaður VR kastað steinum úr glerhúsi þegar þessi staðreynd liggur nú opinberlega fyrir.

Fróðlegt verður að fylgjast með því hvernig almennir félagar í VR taka fréttum af þessari ofurhækkun á launum Ólafíu formanns.