Sjóvá hyggst greiða hluthöfum út 2,5 milljarða króna í tengslum við hlutafjárlækkun félagsins. Þessi greiðsla til hluthafa kemur til viðbótar við 2,65 milljarða arðgreiðslu ársins. Sem vonlegt er hefur Félag íslenskra bifreiðaeigenda gagnrýnt þetta harðlega og lagt til að þessum fjármunum verði skilað til tryggingataka Sjóvár vegna þess að þarna sé um að ræða oftekin iðgjöld, aðallega af bílatryggingum.
Þessi áform Sjóvár eru ein birtingarmynd þess hve illa íslenska krónan leikur Íslendinga. Kostnaðurinn við krónuna birtist ekki einungis í því að fyrirtæki og heimili greiða miklu hærri vexti en tíðkast á Evrusvæðinu, auk þess sem ríkið sjálft ber mikinn kostnað af því að halda uppi þessari örmynt. Sá beini kostnaður nemur um 200 milljörðum á ári.
Krónan er líka viðskiptahindrun sem kemur í veg fyrir samkeppni hér á landi. Íslensku tryggingafélögin sitja ein að íslenska markaðnum vegna þess að ekkert alþjóðlegt tryggingafyrirtæki er tilbúið að fara í það flækjustig og áhættu sem því fylgir að vera með starfsemi á fámennum markaði sem notar gjaldmiðil sem er minni en platpeningarnir, sem notaðir eru í skemmtigörðum Disney.
Fram hefur komið að tryggingaiðgjöld hér á landi eru allt að tvöföld meðað við önnur lönd, meðal annars Norðurlöndin. Tryggingafélögin bera því við að að hár kostnaður vegna tjóna skýri þetta. Þessi fyrirhugaða útgreiðsla til hluthafa, sem Sjóvá segir vera vegna þess að geta félagsins til að greiða tjón sé „fyrir ofan efri mörk viðmiða“, sýnir svart á hvítu að tryggingaiðgjöld hér á landi eru allt of há. Ástæða þess er sú að tryggingafélögin komast upp með að okra á Íslendingum. Hvers vegna? Jú, hér er ekki samkepni til að halda iðgjöldum eðlilegum. Og hvers vegna er það? Það er vegna þess að krónan heldur samkeppninni í burtu. Krónan verndar íslensku tryggingafélögin og gerir þeim kleift að okra á viðskiptavinum sínum.
Tryggingamarkaðurinn er ekki eini markaðurinn sem skákar í skjóli krónunnar og okrar á Íslendingum. Gjaldtaka íslenskra banka, ofan á himinháa krónuvexti, þrífst í skjóli krónunnar. Þjónustugjöld á borð við þau sem íslenskir bankar innheimta af viðskiptavinum sínum þrífast ekki á virkum samkeppnismarkaði. Á krónusvæðinu getur aldrei orðið virk samkeppni á banka- og tryggingamarkaði.
Við þetta bætist að það slævir verðvitund okkar Íslendinga að geta ekki borðið verð á vörum og þjónustu hér á landi saman við verðlag annars staðar vegna þess að við notum aðra mynt en þau lönd sem við berum okkur saman við. Almannahagsmunir hér á landi kalla eftir því að krónan verði aflögð sem gjaldmiðill þjóðarinnar en sérhagsmunirnir, sem þrífast best í skjóli krónunnar, vilja halda í krónuna, einmitt til að geta haldið gjaldskrá sinni „fyrir ofan efri mörk viðmiða“ – á kostnað heimila og atvinnulífs.
- Ólafur Arnarson