Óhugur í bændum vegna tolla

 

Samningar Íslands og ESB um viðskipti með landbúnaðarvörur eru „náttúruhamfarir“. Þetta hefur Morgunblaðið eftir varaformanni Félags kjúklingabænda sem telur að áhrif breytinga geti orðið til þess að innlendir framleiðendur neyðist til að bregða búi. Óvíst sé að íslenskir stjórnnmálamenn hafi vitað hvað þeir voru að semja um.

Í tilkynningu frá stjórnvöldum kom í síðustu viku fram að felldir yrðu niður tollar á 340 nýjum tollskrárnúmerum og tollar lækkaðir á 20 eldri að auki samkvæmt tilkynningu frá landbúnaðarráðuneytinu. Báðir aðilar auka tollfrjálsa innflutningskvóta fyrir t.d. kjöttegundir og osta. Hefur verið rætt um að lækkun vöruverðs geti numið tugum prósenta. Verslunarmenn hafa fagnað samkomulaginu.

Ekki er búið að leggja samningana formlega fram til lokasamþykkis ESB og innlendra stjórnvalda. Óánægjuraddir hafa heyrst úr fleiri herbúðum bænda vegna fyrirhugaðra breytinga og er ótti um aukna samkeppni frá útlöndum ráðandi stef.