Óhreint mataræði helsti ógnvaldurinn

Guðrún Bergmann rithöfundur og athafnakona segir rangt mataræði vera eina mestu heilsufarsógn í lífi nútímafólks. Hún er einn þýðenda bókarinnar Hreint mataræði, sem úrúgvæski hjartalæknirinn Alejandro Junger reit eftir að hafa sjálfur glímt við alvarleg veikindi. Í bókinni boðar hann byltingarkennt kerfi sem vekur upp náttúrulega hæfileika líkamans til að heila sjálfan; með því að neyta aðeins hreins mataræðis losni líkaminn smám saman við þau aðskotaefni sem safnist fyrir í honum og eru fengin t.d. úr unnum matvælum sem innihalda allskyns aukaefni sem meltingarkerfi mannsins er ekkert endilega ætlað að vinna á.  


Guðrún, sem var gestur heilsu- og útivistarþáttarins Lífsstíls á sjónvarpsstöðinni Hringbraut í vikunni segir mengaðan ristil vera undirrót margra verstu sjúkdómana sem hrjái fólk á okkar dögum, en ristilvandamál, sem rekja megi til óhreins mataræðis, færist mjög í aukana og auki nú álag verulega á heilbrigðisstofnanir. Hreint mataræði sé aðferð sem hægt sé að nota til að endurbyggja sig, jafnt líkamlega og andlega og feli í sér einfalda afeitrun enda endurveki hún náttúrulega hæfni líkamans til að hreinsa sig.  


Klippu úr viðtalinu við Guðrúnu er að finna neðar á síðunni og þáttinn í heild sinni undir sjónvarpsflipanum.