Það ætti að þykja saga til næsta bæjar að Ögmundur Jónssson væri gengin úr sínum gamla flokki Vinstri grænum og vandaði gömlum félögum sínum þar ekki kveðjur í stóru viðtali sem birtist við hann í DV um helgina. En þessi staðreynd hefur ekki fengið neina athygli í fjölmiðlum.
Varla gleymist maður eins og Ögmundur Jónasson þjóðinni þó hann hætti á Alþingi eftir langa veru þar. Hann var einn öflugasti leiðtogi vinstri manna um árabil og átti sæti í hinni alræmdu ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur sem sat frá 2009 til 2013 við takmarkaðan orðstýr að margra mati. Ögmundur sagði sig úr stjórn um tíma en kom svo inn að nýju. Margir telja að hann hafi verið öflugasti talsmaður VG á þessum árum og haft meiri áhrif en upplýst hefur verið. Hann átti meðal annars mikinn þátt í að flytja til Íslands refsinornina Evu Joly sem veitti ríkisstjórninni “ráðgjöf” um það hvernig mætti dæma menn seka án dóms og laga. Eggert Skúlason upplýsti það í bók sinni Andersenskjölin en bókin fjallaði að meginstofni til um misgerðir og fall Gunnars Andersen fyrrum forstjóra FME.
Nú er Ögmundur Jónasson utan flokka og farinn að halda fundi um landið til að lýsa skoðunum sínum á kvótakerfinu og krefjast þess að stórútgerðir skili kvótanum til þjóðarinnar. Hann er einnig mjög ósáttur við að gamli flokkurinn hans skuli nú vera í fangi Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórn enda sé flokkurinn „hagsmunabandalag fjármagnsaflanna”.
Ögmundur hefur fengið sér aðstoðarmann vegna þessara fundarhalda. Hann heitir Gunnar Smári Egilsson, fyrrverandi stórforstjóri á „ofurlaunum” en núverandi sósíalistaleiðtogi. Þá er auðvelt að draga þá ályktun að Ögmundur Jónasson sé genginn til liðs við Sósíalistaflokk Gunnars Smára. Það hljóta að teljast tíðindi. Sérlega vond tíðindi fyrir VG.