Glíma hins sýnilega við hið ósýnilega hefur verið mér hugstæð lengi.
Eflaust vegna þess að lengst af hef ég starfað við fjölmiðlum. Fjölmiðlar eru barátta um athyglina og þar eru sölumennska og hégómi stundum fylgifiskar.
Meira að segja góðgerðamál geta orðið að baráttu um athygli. Sem dæmi getur það hentað stóru fyrirtæki vel að fjölmiðlar birti fréttir um að fyrirtækið láti myndarlegar upphæðir renna til þeirra sem minna mega sín. Góðar \"óbeinar\" auglýsingar geta aukið viðskipti almennings við fyrirtækið og skapað meiri hagnað en nemur kostnaði af góða málinu. Ég þekki dæmi þess að stuðningur við góð mál sé háður því að sagt sé frá þeim. Fyrir mörgum árum var ég fréttastjóri á dagblaði og minnist símtals við almannatengil fyrirtækis sem hringdi í mig og bauð að ef blaðið okkar myndi birta forsíðufrétt um gjöf fyrirtækisins til góðra mála myndu bágstaddir njóta þess mjög!
Á sama tíma og góðvildin líkt og sumt annað virðist til sölu í samfélagi markaðsvæðingarinnar búa ýmsar leynihetjur á Íslandi sem aldrei komast í kastljós fjölmiðlanna. Oft er þetta fólk sem styður bágstadda af litlum efnum. \"Hún fer að engu óð, er öllum mönnum góð og vinnur verk sín hljóð,\" orti Davíð Stefánsson svo fagurlega í Konan sem kyndir ofninn minn.
Ég þekki eina svona konu. Þekki konu sem er fátæk af veraldlegum gæðum en það litla sem hún á aflögu um hver mánaðamót fer í að rétta öðrum hjálparhönd. Ég spurði konuna einu sinni hvort hún væri til í að segja frá þessari hugsjón sinni í fjölmiðlum. Hún svaraði: „Það er enga sögu að segja – svona er þetta bara.“
Hinar ósýnilegu hetjur eru kannski stærstu hetjurnar, einmitt með því að bera ekki góðverk sín á torg. Kannski huga þær í leiðinni að tilgangi lífsins, hinum innri verðmætum. Uppskera vellíðan og sálarfrið vegna rausnar sinnar en þrífast hvorki á innantómri athygli né því að fá klapp á kollinn í hagnaðarskyni. Allt er hégómi, sagði predikarinn í Gamla testamentinu. Sumir veita honum þó meira viðnám en aðrir.
Ég finn það gegnum svefninn,
að einhver læðist inn
með eldhúslampann sinn,
og veit, að það er konan,
sem kyndir ofninn minn,
sem út með ösku fer
og eld að spónum ber
og yljar upp hjá mér,
læðist út úr stofunni
og lokar á eftir sér.
Ég veit að hún á sorgir,
en segir aldrei neitt,
þó sé hún dauða þreytt,
hendur hennar sótugar
og hárið illa greitt.
Hún fer að engu óð
er öllum mönnum góð
og vinnur verk sín hljóð -
Sumir skrifa í öskuna
öll sín bestu ljóð.
(Davíð Stefánsson)