Náttfari 13. sept. 2017:
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Framsóknarflokksins greinir frá því í Morgunblaðinu í morgun að Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra og varaformaður hafi í persónulegu samtali þeirra lofað að fara ekki í framboð gegn honum.
Þetta er meiri háttar frétt. Undanfarna daga hafa öll spjót staðið á Sigmundi Davíð. En sé það svo að Sigurður Ingi hafi í raun og veru gefið þetta loforð eftir að upp komst um Panamaskjölin og Sigmundur Davíð steig til hliðar sem forsætisráðherra er staðan innan flokksins gjörbreytt.
Loforðið er augljóslega gefið eftir að Sigurði Inga eins og landsmönnum öllum var ljóst að Sigmundur Davíð hefði gert mistök með því að segja ekki frá því sem Panamaskjölin höfðu að geyma. En Sigurður Ingi hefur ekki metið mistökin meiri en svo að hann gæti gefið loforð um að fara ekki gegn Sigmundi Davíð.
Eftir að þetta er komið í ljós er skiljanlegt að formanni Framsóknarflokksins skuli líða líkt og Júlíusi Sesari forðum: Et tu, Brute. Og þú líka, Brútus. Þessi orð sem Shakespeare gerði fleyg lýsa betur en flest önnur marklínunni sem skilur að svik og sæmd.
Og því má svo bæta við að Guðni Ágústsson mun hafa fullvissað Sigmund Davíð um að formaður Framsóknarflokksins væri alltaf óhultur gagnvart lyndiseinkunn Brútusar: Sæmdin væri hverjum þeim framsóknarmanni sem sæktist eftir því embætti meira virði en svikin.
Í þessu ljósi verður að telja heldur ólíklegt að Sigurður Ingi bjóði sig fram gegn sitjandi formanni.