Þingmenn hverfa smám saman úr þingflokki Vinstri grænna. Fyrst yfirgaf Andrés hópinn og í síðustu viku kvaddi Rósa Björk Brynjólfsdóttir þingflokkinn.
Og þá voru eftir níu. Minnir nokkuð á þuluna fornu.
Formaður VG lét eins og brottför Rósu væri ekkert mál. En samt leyndi sér ekki að henni var brugðið. Um svipað leyti birtust skoðanakannanir sem sýna að þingmannafjöldi VG mælist nú einungis sex menn og fylgið 9,6 prósent en var 17,9 prósent í síðustu kosningum. Samkvæmt því hefur flokkur Katrínar Jakobsdóttur tapað 46 prósent kjósenda sinna frá kosningunum. Umrædd könnun var þó gerð áður en Rósa fór og vandaði flokknum ekki kveðjur vegna stefnunnar í málefnum flóttafólks sem ætlunin er að vísa úr landi - í boði ríkisstjórnar Katrínar.
Nú er ár til þingkosninga ef ríkisstjórnin nær að hanga svo lengi. Ætla má að tíminn fram að kosningum verði mjög erfiður fyrir stjórnarflokkana, einkum VG og sér í lagi Katrínu forsætisráðherra.
Rósa Björk veit alveg hvað hún er að gera með því að yfirgefa nú sökkvandi skip VG.
Hún mun fljótlega ganga í Samfylkinguna, leiða þar lista í næstu kosningum og verða ráðherra komist Samfylkingin í ríkisstjórn.
Því er spáð hér að Katrínar Jakobsdóttur og VG bíði það hlutverk fram að kosningum að reyna að koma í veg fyrir að flokkur hennar falli niður fyrir fimm prósent fylgi og falli þar með út af Alþingi.
Það yrði saga til næsta bæjar.