...og hvað gera þessir félagsfræðingar eiginlega?

Þegar ég stundaði nám í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands lenti í ég margoft í því að bæði ættingjar og vinir töldu mig vera að læra félagsfræði. Fólk sagði til dæmis: ,,Já mamma þín sagði mér að þú hefðir farið að læra félagsfræði” eða ,,hvernig gengur svo í félagsfræðinni?” Oft var freistandi að segja bara „já það passar, það gengur vel“ og það gerði ég stundum til að byrja með. Þegar leið á námið fór ég að leiðrétta fólk: ,,Nei það heitir reyndar félagsráðgjöf það sem ég er að læra”. Þá fékk ég gjarnan nokkuð krefjandi spurningu til baka: ,,Nú! Er það ekki bara sami hluturinn?” Stutta svarið er nei. Ég veit ekki hversu oft ég hef þurft að útskýra fyrir fólki hvað félagsráðgjöf er og ég veit að ég er ekki einn um þessa reynslu. Ég er á engan hátt að gefa til kynna að það sé eitthvað minna verðugt að læra félagsfræði, þetta er bara ekki sami hluturinn. 

Félagsráðgjöf í stuttu máli

Til einföldunar byrjaði ég oft á því að segja fólki að líta mætti á námið í félagsráðgjöf sem einskonar blöndu af félagsfræði og sálfræði. Við lærum sem dæmi almenna félagsfræði, sálfræði, viðtalstækni, stjórnmálafræði, svolítið í lögfræði (lög sem tengjast starfi félagsráðgjafa) og um geðræna sjúkdóma. Næsta spurning hjá fólki var þá gjarnan: ,,En hvað gera þá svona félagsráðgjafar?”

Félagsráðgjafi er lögverndað starfsheiti og gefur Landlæknisembætti Íslands út starfsleyfið, því er í raun um að ræða heibrigðisstétt. Félagsráðgjafar vinna mjög gjarnan með fólki í neyð eða fólki sem vantar aðstoð vegna erfiðleika eða einhverskonar krísu í lífi sínu. Að mínu mati má segja að félagsráðgjafar sinni gjarnan ákveðnu stuðnings- og réttargæslu hlutverki. Félagsráðgjafar vinna mikið út frá heildarsýn og hugmyndinni um ólík kerfi samfélagsins (kerfiskenningum). Menntun félagsráðgjafa gerir þá einstaklega vel undirbúna fyrir teymisvinnu enda vinna þeir gjarnan slíka vinnu. Félagsráðgjafa má í raun finna í allri velferðarþjónustu: Í félagsþjónustu, barnavernd, á spítölum, í vinnu hjá bæjarfélögum eða ríki, á Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins , á endurhæfingarstofnunum, í öldrunarþjónustu, í fötlunarþjónustu og svona mætti lengi áfram telja. Félagsráðgjafar vinna líka margir við sambandsráðgjöf, fjölskylduráðgjöf eða annarskonar ráðgjöf. Nám félagsráðgjafa er góður grunnur fyrir þá sem vilja sinna þerapískri vinnu. Félagsráðgjöf er sífellt að þróast og má þar til dæmis nefna hugmyndina um skólafélagsráðgjafa. Slíkur félagsráðgjafi gæti hlúð að aðbúnaði og líðan nemenda og verið tengiliður skóla við aðrar stofnanir, s.s. barnavernd.

Vinsældir náms í Félagsráðgjöf hafa aukist gífurlega hér á landi undanfarin ár og áratugi en stéttin er enn mikil kvennastétt. Gæti verið að það sé ástæðan fyrir því að margir vita ekki hvað félagsráðgjafar gera? Getur það verið ástæðan fyrir því að margir félagsráðgjafar hafa ekki laun í samræmi við 5 ára háskólanám? Ég velti þessu allavega fyrir mér nú þegar rúmlega 100 hjúkrunarfræðingar hafa gripið til þeirra örþrifaráða að segja upp störfum sínum á landspítalanum í von um að vinna þeirra og menntun verði metin til launa. Hjúkrunarfræðingar kvarta líka yfir því að ráðamönnum og mörgum öðrum í samfélaginu skorti innsýn í störf þeirra. Ég held að þetta sé rétt og ég held að þetta eigi líka við um félagsráðgjöf.

Ég vona að þessi stutti pistill geri það að verkum að aðeins fleiri viti nú aðeins meira um félagsráðgjöf. Áfram hjúkrunarfræðingar og áfram félagsráðgjafar!