Ofvirkir og skotglaðir bæjarbúar

Hrósið þessa vikuna fá allir þeir Íslendingar sem með gjörðum sínum sýna nágrönnum sínum tillitssemi.

Hægt er að gera það með ýmsum hætti.

Ein leið á sumrin er að hefja ekki garðslátt fyrir klukkan 10 á morgnana.

Fátt er verra en að vakna við ofvirka nágrannann og sláttuvélina hans klukkan 7 að morgni og jafnvel um helgi – gildir einu þótt dagur sé bjartur.

Það sem stendur okkur nær nú í kuldanum og myrkrinu er tillitssemi gagnvart svefni barnanna okkar.

Nokkrum sinnum síðari ár hef ég bölvað þeim rakettuóðu og tímavilltu bæjarbúum sem að kvöldi þrettándans skjóta upp með miklum hávaða fírverkeríi fram á nótt. Í fyrra tókst mér ekki að svæfa tvö ung börn fyrr en nálægt miðnætti. Þau hrukku upp hvað eftir annað við sprengjur. En í ár heyrðist ekki einn einasti hvellur þar sem ég bý eftir klukkan 20.30. Enda þurfa ung börn að vera sofnuð fyrir þann tíma. Skólar hefjast flestir um klukkan átta á morgnana og rannsóknir sýna að börnin okkar þurfa meiri svefn. Einkum í svartasta skammdeginu. Skotóðir nágrannar hafa engan rétt á að rýra lifsgæði barnanna okkar.

Það kostar að jafnaði ekki neitt að taka tillit til náungans, en verðlaunin geta verið breitt bros að morgni næsta dags sem ekki verður metið til fjár.

Ef þú smælar framan í heiminn smælar heimurinn framan í þig, sagði Megas.

Ef þú sprengir nágranna þinn í tætlur mun kannski eins fara fyrir þér síðar!

(Þessi pistill Björns Þorlákssonar birtist fyrst í Kvikunni á hringbraut.is)