Fréttablaðið birtir í dag skoðanakönnun sem gerð var mánudag og þriðjudag í þessari viku. Könnun þessi er mjög ófullkomin enda svörun lítil. Hún gefur þó vísbendingu um straumana núna þegar 3-4 vikur eru til kosninga. Víst er að mikið á eftir að breytast á þeim 24 dögum sem eru til stefnu.
Aðferð FB við gerð þessarar könnunar var svoan: Hringt í 1,354 þar til náðist í 800 manns. Svarhlutfall þannig 59,1%. Af þessum 800 tóku einungis 62,1% afstöðu eða 497 manns. Þannig eru ekki nema 144 jákvæð svör á bak við fylgi VG sem kom langbest út úr könnuninni með 29%. Sjálfstæðisflokkur fékk 22%, Píratar 11,4% og aðrir minna.
Athygli vekur að flokkur Sigmundar Davíðs fékk ekki nema 8,9% út úr þessari könnun sem er lítið í ljósi þess að könnunin er gerð skömmu eftir að hann spilar út stórri reykbombu um skattamál þeirra hjóna sem ætluð var til að bæta stöðu og ásýnd hans. En þegar betur var að gáð kom á daginn að með þessu útspili var Sigmundur Davíð að upplýsa að hann hefði ekki farið að lögum og var þannig “Tekinn í rúminu” eins og virtur háskólakennari við HÍ benti á. Það kom hins vegar ekki fram fyrr en liðið var á könnunina.
Ef unnt er að líta á þessa skoðanakönnun sem vísbendingu, þá hlýtur vinstri stjórn VG, Pírata og Samfylkingar að verða niðurstaðan. Á bak við slíka stjórn ættu að vera 34 þingmenn. Landsmenn gætu þá farið að búa sig undir stórfelldar skattahækkanir sem næmu 50 til 70 milljörðum á ári. Efsta þrep tekjuskatts einstaklinga yrði hækkað verulega, fjármagnstekjuskattur færi trúlega í 30% og auðlegðarskattur á efnað fólk og eldri borgara yrði tekinn upp að nýju. Þessar skattahækkanir myndu ekki vefjast fyrir Steingríma J. Sigfússyni þegar hann kæmi “heim” í fjármálaráðuneytið eins og hann hefur dreymt um frá því hann yfirgaf það á sínum tíma eftir mesta skattpíningarskeið Íslandssögunnar.
Þær vísbendingar sem má lesa út úr þessari könnun og reyndar sumum öðrum eru þessar helstar: VG í mikilli sókn, alla vega ennþá. Sjálfstæðisflokkurinn er svipaður nú og í aðdraganda síðustu kosninga. Hann gæti varið núverandi stöðu. Píratar eru klárlega á niðurleið. Þeir gætu endað með 7-9% fylgi. Ekkert hinna sex framboðanna er öruggt um að koma manni á þing. Samfylking, Viðreisn, Framsókn, Miðflokkurinn, Flokkur fólksins og Björt framtíð gætu öll lent í því að koma ekki manni á þing.
Allt mun þetta skýrast betur þegar stærri og traustari skoðanakannanir birtast þegar nær dregur kosningum. Eins og venjulega er það þó einungis stóra könnunin sem skiptir máli, kosningarnar sjálfar.
Rtá.