Ástandið í ríkisstjórn Íslands er nú mun verra en fólk gerir sér grein fyrir. Bankasalan kemur illa við Bjarna Benediktsson þó að mörgum þyki ósanngjarnt að skella allri skuldinni á hann. Mótrök hans virðast ekki virka á kjósendur. Fólk hefur náð að bíta í sig hugmyndir um óréttlæti, mismunum og sukk eins og viðgekkst í aðdraganda bankahrunsins. Hörð gagnrýni úr ýmsum áttum og mótmæli eru sögð vera farin að koma mjög illa við Bjarna.
Þessi staða gæti leitt til þess að Bjarni hraði brottför sinni af vettvangi stjórnmálanna en hann hefur lengi beðið eftir hentugu færi til þess. Sú stund hefur hins vegar ekki enn runnið upp. Ætlunin mun hafa verið að Bjarni viki fyrir varaformanni flokksins úr fjármálaráðuneytinu en yrði sjálfur utanríkisráðherra áður en hann léti af formennsku í Sjálfstæðisflokknum. Ástandið núna gæti leitt til slíkra hrókeringa fyrr en seinna og mun fyrr en ráðgert var.
Sigurður Ingi Jóhannsson er sagður vera miður sín ennþá vegna hneykslisins á bændaþinginu í byrjun apríl þegar hann og Lilja Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar, urðu sér til skammar í djammpartíi þar sem Sigurður viðhafði rasísk ummæli um framkvæmdastjóra Bændasamtakanna og Lilja varpaði formanni Bændasamtakanna á dyr. Framkoma þeirra þykir vera brot á siðareglum ríkisstjórnarinnar og hefur vakið mikla athygli og hneykslan.
Framsóknarmenn hafa vonast eftir því að framkoma ráðherra þeirra gleymdist hratt, en óskir þeirra virðast ekki ætla að rætast. Sigurður er vandræðalegur vegna málsins og reynir að fara með veggjum. Hann varð t. d. sextugur í síðustu viku, þann 20. apríl. Ætlunin var að efna til stórfagnaðar til að vekja jákvæða athygli í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga og bjóða mörg hundruð gestum í mat og drykk. Ekkert varð úr því. Sigurður Ingi mun ekki hafa treyst sér til að horfa framan í fjölda gesta – síst af öllu þar sem kræsingar og dýrar veigar væru í boði.
Menn nefna ekki snöru í hengds manns húsi, svo vitnað sé í máltæki.
Lilja Alfreðsdóttir hefur hins vegar valið að vekja á sér neikvæða athygli og reynt að láta sem ekkert sé. Fólk sér í gegnum upphlaup hennar. Vanhugsaðar yfirlýsingar um bankamálið hafa vakið reiði sjálfstæðismanna og þykja vera lúalegar í garð formanns Sjálfstæðisflokksins. Geymt en ekki gleymt, segja þeir.
Ástandið á ríkisstjórnarheimilinu er kalt og vandræðalegt þessa dagana og ekki bætir úr skák að kosningar eru handan við hornið.
Gárungarnir leika við hvern sinn fingur og spyrja með púkasvip …………„ER EKKI BARA BEST AÐ DJAMMA HEIMA?“
- Ólafur Arnarson