Skafti Harðarson og fleiri frjálshyggjumenn á Seltjarnarnesi skoða nú hvort þeir bjóði fram í komandi bæjarstjórnarkosningum á Nesinu eins og fyrir fjórum árum.
Þá fór Skafti fyrir F-lista sem skipaður var fólki allra lengst til hægri í stjórnmálum. Framboðið náði þokkalegu fylgi en fékk engan mann kjörinn. Skafti Harðarson er einn af stofnendum Félags frjálshyggjumanna og hefur verið formaður Samtaka skattgreiðenda.
Ástæða framboðsins fyrir fjórum árum var sú að Skafti og félagar voru ósáttir við forystu Sjálfstæðisflokksins á Nesinu. Þeir töldu að lausatök væru í rekstri bæjarfélagsins og vildu hægri sinnaðri stefnu í málefnum sveitarfélagsins.
Hafi verið ástæða til að gagnrýna forystu Sjálfstæðisflokksins á Seltjarnarnesi fyrir fjórum árum er enn frekari ástæða til þess nú. Bærinn hefur safnað skuldum, þjónustu við bæjarbúa hefur hrakað og lítið fer fyrir uppbyggingu í bænum.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur ráðið ríkjum á Nesinu frá upphafi. Mikill uppgangur einkenndi sveitarfélagið í langri og farsælli forystutíð Sigurgeirs heitins Sigurðssonar bæjarstjóra en hann réði ríkjum um áratuga skeið. Síðan hann hætti hefur stöðnun einkennt reksturinn. Sem dæmi má nefna að á því kjörtímabili sem nú er að ljúka hefur ekki bæst við ein einasta íbúð á Seltjarnarnesi.
Sjálfstæðisflokkurinn gagnrýnir Reykjavíkurborg stöðugt fyrir skort á nýbyggingu íbúða í borginni sem þó nemur þúsundum á ári hverju. En undir forystu flokksins á Nesinu hefur engin íbúð bæst við á fjögurra ára kjörtímabili.
Nýlega fór fram prófkjör hjá Sjálfstæðisflokknum á Seltjarnarnesi. Talið var að um hreint formsatriði væri að ræða varðandi val á nýjum oddvita í stað Ásgerðar Halldórsdóttur sem hættir nú sem bæjarstjóri. Magnús Örn Guðmundsson hefur bæði gegnt stöðu forseta bæjarstjórnar og formanns bæjarráðs og var þar af leiðandi í kjörstöðu til að ná kosningu í fyrsta sæti í prófkjörinu.
En þá brá svo við að þrír aðrir bæjarbúar buðu sig fram í fyrsta sæti. Magnús forseti fékk fæst atkvæði þeirra fjögurra sem sóttust eftir fyrsta sæti. Fleiri atkvæði í fyrsta sætið fengu Svana Helen Björnsdóttir, verkfræðingur og Evrópusinni, Ragnhildur Jónsdóttir hagfræðingur og sá sem kom, sá og sigraði, Þór Sigurgeirsson, sonur Sigurgeirs heitins bæjarstjóra. Hann mun leiða listann.
Magnúsi Guðmundssyni var hafnað og lenti í þriðja sæti í prófkjörinu í heild. Búist var við því að hann drægi sig í hlé vegna þeirrar niðustöðu en hann gerði það ekki og skipar þriðja sæti lista flokksins sem nú hefur verið birtur. Þykir það mjög veikt.
Svo kann að vera að sú útreið sem Magnús hlaut í prófkjörinu hafi þau áhrif á Skafta Harðarsson og félaga að þeir efni frekar til framboðs en ella, en Magnús hefur staðið fyrir svipaða stefnu í málefnum bæjarins og frjálshyggjumenn Skafta.
Öll framboðsmál á Seltjarnarnesi hljóta að skýrast fyrir páska.
- Ólafur Arnarson.