Uggvænleg þróun er hafin á Alþingi Íslendinga. Með fordæmalausu ofbeldi hertóku þingmenn Miðflokksins ræðustól Alþingis og komu í veg fyrir að þingið gæti starfað með eðlilegum hætti. Til þessa nutu þeir ákafs stuðnings ritstjóra Morgunblaðsins (bæði núverandi og fyrrverandi).
Miðflokksmenn skákuðu í því skjóli að dagskrármálið sem þeir þæfðu svo lengi að sló öll met, Orkupakki þrjú, væri framsal fullveldis. Margoft hefur verið sýnt fram á að sú fullyrðing er alröng, en líklega hafa þeir verið minnugir þess að sé sama lygin endurtekin nógu oft fari fólk að trúa henni.
Margoft var reynt að ná sáttum um þinglok, en tókst ekki því þeir hótuðu áframhaldandi málþófi, þ.e. ofbeldi, ef málið yrði ekki tekið af dagskrá. Svo náðist loksins „samkomulag“ þann 18. júní. Það felur í sér að boðað verði til sérstaks síðsumarþings í tvo daga til að ljúka umræðunni um þriðja orkupakkann. Það er nú það!
Hver er svo grænn að trúa því að Miðflokkurinn standi við það loforð? Í viðhafnarviðtali við mbl.is í dag er haft eftir formanni Miðflokksins: „Maður á vissan hátt saknar blessaðs stríðsins,“ segir Sigmundur hýr í bragði, á vissan hátt sigri hrósandi. Orkupakkanum var frestað.“
Hann er semsagt sigri hrósandi, enda lyppuðust forystumenn annarra stjórnmálaflokka á Alþingi niður undan ofbeldinu. Þingmenn voru svo ólmir að komast í sitt langþráða (og langa!) sumarfrí að þeir stukku til og gleyptu agnið.
Því skal spáð hér að þegar komið verður til „síðsumarþings“ verða þingmenn Miðflokksins búnir að finna sér ástæðu til að standa ekki við þetta samkomulag og kenna auðvitað öðrum um að hafa svikið, þannig að áfram verður þingið í gíslingu ofbeldismanna Miðflokksins og forysta ríkisstjórnarinnar svo lítilla sanda og sæva sem hún er heldur áfram að lyppast niður undan ofbeldismönnunum þangað til þeir hafa sitt fram: Orkupakkann af dagskrá og aðildin að EES samningnum verði tekin til endurskoðunar með það í huga að segja Ísland frá þeim samningi! V erður þá fróðlegt að sjá hvernig hinir friðelskandi friðkaupendur á Alþingi bregðast við