Ófært víða á stærsta kvöldi ófærðar

Óhætt er að staðhæfa að sjaldan hafi mátt greina meiri eftirvæntingu meðal landsmanna en í dag vegna þess íslenska sjónvarpsefnis sem boðið verður upp á í kvöld. Þá mun Ríkisútvarpið sýna tvo síðustu þætti Ófærðar. Mun liggja fyrir um klukkan 23 í kvöld hvaða Seyðfirðingar eru morðóðir og hverjir ekki!

Hitt varpar örlitum skugga á fjölmiðlahátíðina fram undan að Ófærð er ekki bara í sjónvarpinu í kvöld, ófærð er líka í eiginlegum skilningi víða um land. Þannig segir í nýlegri ábendingu frá veðurfræðingi að hvöss norðanátt og hríð sé nú á norðanverðu landinu en dragi úr vindi og ofankomu NV-til

síðdegis og í kvöld. \"Áframhaldandi stórhríð NA-til fram á nótt,\" segir í ábendingu veðurfræðings á Veðurstofunni.

Fjarðaheiðin var lokuð framan af í Ófærð og ófært var einnig flugleiðis. Í veruleikanum eru nokkur dæmi um vegi í dag sem lokaðir eru, m.a. vegna snjóflóðahættu en snjóflóð kom mjög við sögu í einum þáttanna og banaði manni. Lokað er um Siglufjarðarveg vegna snjóflóða en nokkur hluti þáttaraðarinnar var tekinn upp á Siglufirði. Einnig er lokað um Víkurskarð, Mosfellsheiði, Holtavörðuheiði og austur yfir Mývatns- og Möðrudalsöræfi vegna veðurs.

Vegfarendur sem ætla sér að fara yfir Holtavörðuheiði í dag geta farið vegi nr. 59 og 60, Laxárdalsheiði og Brattabrekka, eru opnir en þar er hálka, þæfingur og einhver skafrenningur.

Á Snæfellsnesi er ófært yfir Fróðárheiði en hálka og óveður er á sunnanverðu Snæfellsnesi.

Hringbraut hefur haft spurnir af vegfarendum sem komast ekki leiðar sinnar í dag og búa sig nú undir að sjá Ófærð á gistiheimili - þar sem við blasir að ófært verði heim í stofu.

Þá má geta þess að Íslendingar í útlöndum sem ekki ná að sjá lokaþættina tvo fyrr en á morgun vegna réttindamála hafa beðið Hringbraut að koma því áleiðis til landsmanna að það yrði vel séð ef menn myndu heldur halda aftur af sér á facebook við að upplýsa um morðingjann að loknum þáttum kvöldsins - til morguns. En þá ættu þættirnir að vera komnir á sarpinn á rúv-vefnum og vera öllum aðgengilegir.