Óhætt er að segja að meira en annar hver landsmaður bíði þess í ofvæni að sjá tvo síðustu þættina af Ófærð annað kvöld. Ófærð er listræn afurð sem kalla má kærkomið sameiningartákn fyrir sundraða þjóð.
En það var fátt sem benti til þess þegar tveir fyrstu þættirnir höfðu verið sýndir. Þá vorum við sem þjóð komin furðu vel á veg að rífa þáttinn í okkur, gagnrýna hann í spað. Það eitt að blanda saman myndskeiðum frá Siglufirði og Seyðisfirði var alveg að fara með suma. Og svo var enginn rétt klæddur í stórhríðinni og ég veit ekki hvað og hvað. Besserwisserar landsins stigu hópdans á facebook og tættu í sig þáttinn. Í raun voru það áhrif frá útlöndum sem sneru viðhorfi íslensku þjóðarsálarinnar til Ófærðar. Viðurkenning að utan trompar enn íslenska neikvæðni.
Gunnar Smári Egilsson blaðamaður var í áramótaspjalli við Sigmund Erni Rúnarsson á Hringbraut fyrir jólin. Smári var þá nýfluttur til Íslands eftir ferðalög víða um heim og alllanga dvöl í Frakklandi. Þeir sem flytja aftur til Íslands eftir dvöl utanlands sjá oft samfélagið í skýrara ljósi en þeir sem eru samdauna útnáranum hér allan ársins hring. Gunnar Smári ræddi að þegar hann sneri aftur heim fyrir áramót og lenti í hópi fólks, gekk honum lítið að ná fram umræðu um kosti nokkurra einstaklinga sem þá voru í sviðsljósinu. Ef einhver fjarstaddur slíkur var til umræðu, rifu viðmælendur hans hinn sama á hol með neikvæðustu athugasemdum. Líkt og sá hefði enga kosti, aðeins galla. Kom þó oftar en ekki upp úr dúrnum að þeir sem dæmdu hinn fjarstadda harðast höfðu kannski aldrei hitt hann. Blind dómharka. Neikvæðni af áður ókunnri stærðargráðu.
Sjálfur hef ég fallið á þessu prófi. Ég hef gert mér í hugarlund að þessi eða hinn væri þannig eða hinsegin að ég hef staðið mig að því að draga upp djöful í mannsmynd. Svo liggja leiðir saman og skapast góð kynni. Fordómum verður best eytt með því að við hittumst og ræðum þau ágreiningsefni sem lýðræðið færir okkur.
Víkur þá aftur sögu að Ófærð. Mér varð það á eftir tvo þætti að hrósa þessari sjónvarpsþáttagerð í hástert. Ég var þá (og er enn) svo þakklátur að fá íslenskt sjónvarpsefni úr íslenskum samtíma eftir langvarandi svelti að ég bara brosi allan hringinn. Ég var og er svo þakklátur að mér var alveg sama hvort krakki í stórhríð hefði verið með opna úlpu, vantaði vettling eða hvort eitt eða annað væri langdregið. Og fyrirgef hljóðfælamistökin sem og önnur mistök. Eins og að drekka vatn!
Hinn jákvæði pistill sem ég birti á hringbraut.is undir fyrirsögninni “Af hverju er Ófærð frábært sjónvarp?” var að mínu mati ólíklegastur allra þeirra pistla sem ég hef skrifað á Hringbraut til að skapa umdeilanleika. En höggið kom og þvílíkt högg. Þjóðkunnir “gleðigjafar” tögguðu mig á facebook, hæddust að pistlinum, gerðu því skóna að ég væri algjört fífl sem hefði ekkert vit á krítík. Hvaða rétt hefði einhver blaðamaður til að setja fram barnalega aðdáun sína á þáttaröð, ómenntaður maður í leikhúsfræðum? Þetta var á þeim tíma sem afar mikil spurn var eftir neikvæðri umræðu um Ófærð. Visir.is og dv.is birtu sem dæmi hverja fréttina á fætur annarri þar sem hinn eða þessi sagði eitthvað neikvætt um Ófærð á facebook. Jón Viðar Jónsson krítíker fékk held ég 10 fréttir alls. Alltaf þegar hann skrifaði neikvætt um Ófærð varð til frétt. Og það var ekki fyrr en lofsamlegar umsagnir erlendra gagnrýnenda (þeirra sem hafa menntað sig og hafa vit á krítík!) fóru að berast sem gat kom á íslensku gallskjóðuna.
Kannski er orðið tímabært að kalla til pípulagningamanninn? Fá hann til að rífa niður stóru gallsturtuna áður en hún drekkir einhverjum. Við getum verið gagnrýnin en við getum á sama tíma baðað okkur upp úr ýmsu öðru en galli, sum okkar hafa fullan rétt til að baða sig upp úr jákvæðni, maður á ekki að þurfa að vakna við skvettu af galli í andlitið til að verða gjaldgengur - eða hvað?
(Þessi pistill Björns Þorlákssonar birtist fyrst í Kvikunni á hringbraut.is)