Nýjar rannsóknir sem unnar hafa verið af vísindamönnum við Doha-háskólann í Katar þykja renna stoðum undir þá kenningu að of lítill svefn valdi því að fólk fitni um of.
Margar rannsóknir hafa verið gerða til að sanna samhengi á milli lítils svefns og offitu, en nýja rannsóknin við Doha-skólann sýnir jafnframt fram á það að ekki dugir að reyna að bæta sér upp lítinn svefn í miðri viku með því að sofa út um helgar. Svefninn þarf að vera jafn og nægur yfir alla vikuna svo líkamninn og hugurinn starfi eðlilega.
Góður svefn eykur alla jafna starfsþrek og því jafnari sem hann er yfir vikuna því minni líkur virðast vera á því að það þurfi að bæta líkamanum upp þann ójafna orkubúskap sem hlýst af óreglulegum svefni.
Þessar rannsóknir benda enn fremur til þess að samhengið á milli lítils svefns og offitu sé jafnvel meira hjá börnum en fullorðnum.