Arna Guðlaug Einarsdóttir, kökuskreytingarmeistari og fagurkeri með meiru, veit fátt skemmtilegra en að baka og skreyta kökur. Fyrir aðventuna gerir Arna ávallt aðventukrans sem má borða. Það eru sætabrauðkrans sem gleður bæði auga og munn.
Sætabrauðskransinn er til að mynda afar jólalegur og miklu sætari en krans með greni. Arna heldur úti síðunni Kökukræsingar Örnu á Facebook og þar eru kökur sem hún hefur bakað fyrir vini og vandamenn og gaman er að fylgjast með því sem hún tekur sér fyrir hendur í bakstrinum á síðunni.
Við fengum Örnu til að svipta hulunni af aðventu sætabrauðskransinum sínum sem hún er þekkt fyrir að baka. Er saga á bak við aðventu sætabrauðskransinn sem þú bakaðir fyrir lesendur?
„Aðventusætabrauðskransinn á sér sögu. Mamma mín bakaði hann alltaf á aðventunni á mínu æskuheimili. Hann var alltaf bakaður samdægurs og borinn fram með smjöri sem bráðnaði í brauðið. Einnig má bera hann fram með osti og sultu.“
Arna Guðlaug Einarsdóttir kökuskreytingarmeistari er þekkt fyrir sínar gómsætu og fallegu kökur með listrænu ívafi./Ljósmynd Stefán.
Nú er bara að vinda sér í baksturinn að njóta enda fyrsti í aðventu næstu helgi.
Sætabrauðskrans
½ l mjólk
1 bréf þurrger
½ tsk. salt
1 tsk. kardimommur (duft)
100 g smjör (mjúkt)
850 g hveiti
Leysið gerið upp í smá volgri mjólk, bætið salti, sykri, kardimommum og smjöri út í volga mjólkina. Bætið hveitinu rólega saman við. Hnoðið deigið vel, skiptið deiginu í þrjá jafna hluta og rúllið þeim í þrjár jafnlangar lengjur. Fléttið og mótið hring á bökunarpappír á ofnplötu. Leggið viskastykki yfir og látið hefast í sirka klst. Penslið kransinn með pískuðu eggi og stráið perlusykri yfir. Bakið við 190°C blástur í sirka 30 mínútur.
Síðan er bara að stinga fjórum kertum í kransinn og njóta ljóssins og loks sætabrauðsins á síðasta degi aðventunnar.