Sníðugt á Íschlandi sagði í einhverju áramótaskaupanna.
Enda margt sniðugt hér dags daglega.
Mér fannst sem dæmi sniðugt þegar ég lærði sem barn að eyjar á Breiðafirði væru eitt af þrennu sem kallað hefur verið óteljandi á Íslandi. Annað var Vatnsdalshólar ef ég man rétt og þriðja vötnin á Arnardalsheiði.
En nú á árinu 2015 hefur fjórða fyrirbærið bæst við.
Jafnvel talnaglöggir fréttamenn ná ekki að koma mynd á fjölda fyrirbrigða af þessu tagi með aðstoð Excel, svo mörg og margvísleg eru þau.
Við erum að tala um SKANDALA, fjölda skandala á fréttaárinu 2015.
Þar voru stjórnvöld iðnust við kolann ólíkt því sem hægt er að segja um vötnin, hólana og eyjarnar.
Nýjasti skandallinn er útspil stjórnar Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar.
Það að láta einsog ekkert hafi í skorist eftir Stím-dóminn sýnir að elítan lætur sig trúnað við almenning engu varða heldur einblínir á að dæmdur framkvæmdastjóri fái sem mýksta lendingu, þrátt fyrir 18 mánaða fangelsisdóm. Í dómi héraðsdóms segir að umboðssvikin hafi valdið stórfelldum fjárskaða fyrir almenning. Ofan á þann skaða kýs stjórn AFE nú að verja peningum skattgreiðenda í laun handa dæmdum framkvæmdastjóra sem framdi brot sitt þegar hann var framkvæmdastjóri hjá íslenskum banka. Hann mun þrátt fyrir dóminn gegna öllum skyldum félagsins fram að dómi Hæstaréttar. Og manni dettur hreinlega í hug að þótt hann verði einnig fundinn sekur í Hæstarétti, fái jafnvel þyngri dóm, muni elítan finna nýja leið til að halda honum í hitanum.
Hvort það er samtrygging valdsins eða meðvirkni gagnvart brotamönnum með hvítan flibba skal ósagt látið, en víst er að þetta er ekki Íslandið nýja sem kallað var eftir að loknu hruni og leggja átti grunn að í kjölfar Rannsóknarskýrslu Alþingis.
Allt er þetta mál sorgarsaga, sem hófst með fréttatilkynningu frá AFE um að framkvæmdastjórinn nýráðni þá hefði \"aðstoðað\" sérstakan saksóknara en þegar gerðar voru athugasemdir við ráðninguna var viðbragð stjórnar AFE að líkur á sakfellingu væru litlar. Hvaðan hafði stjórnvaldið þær upplýsingar? Og nú eftir sektardóm ber ný stjórn AFE enn höfðinu við steininn og lætur almannahagsmuni lönd og leið.
Almenningur getur sem sagt étið það sem úti frýs - eins lengi og hægt er nýta skattféð sem streymir úr okkar vösum til að kynda spillingar- og skandalabál elítunnar.
Vissulega er fallegt á Íschlandi eins og myndin að ofan úr Mývatnssveitinni ber með sér en hættir sumra sem stjórna þessu landi og fara með opinbert fé eru sannarlega hvorki fallegir né sniðugir.
Eitthvað til að hugsa um yfir jólin.
Gleðileg jól, Ísland!
(Þessi pistill Björns Þorlákssonar birtist fyrst í Kvikunni á Hringbraut)