Nýr veruleiki - uppstokkun stjórnmála á sex vikum

Eftir að Bjarni Benediktsson tilkynnti í gær um endalok vinstri stjórnar sinnar og Katrínar Jakobsdóttur sem setið hefur síðustu 7 árin er allt í óvissu um framhaldið á vettvangi íslenskra stjórnmála.

Almennt er endalokum þessarar lánlausu ríkisstjórnar fagnað. Hún hefur starfað andvana í langan tíma enda er eins vonlaust að treysta á samstarf Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna og að freista þess að blanda saman bensíni og vatni. Út frá þjóðarhag er það fagnaðarefni að líf stjórnarinnar hafi nú endanlega verið stytt um heilt ár en ekki hálft ár eins og nýr formaður Vinstri grænna lagði til á flokksfundi fyrir viku og hótaði þar með samstarfsflokkunum. Nú er sú hótun komin beint í andlit Svandísar Svavarsdóttur sem gekk út frá því sem vísu að unnt yrði að traðka á Sjálfstæðisflokknum eins og hún hefur gert áður. „Svo má brýna deigt járn að það bíti,“ segir gamalt máltæki. Það kom á daginn í gær þegar Bjarni Benediktsson tók frumkvæðið og tilkynnti um endalok vinstri stjórnarinnar. Nú opnast sviðið og margt mun breytast og taka á sig mynd fram til loka nóvember.

Þó að þessi niðurstaða hafi legið í loftinu um skeið þá eru það mikil tíðindi þegar hún raungerist. Flokkarnir eru misvel tilbúnir í kosningabaráttu. Sumir hafa nýlokið við stóra fundi eins og Miðflokkurinn, Viðreisn og Vinstri græn sem reyndar skutu sig í fótinn með vanhugsuðum yfirlýsingum. Ýmsir hafa boðað prófkjör sem ekki verður nú unnt að koma við. Flestir flokkanna eru ekki of vel settir fjárhagslega og lenda í vandræðum með þá kostnaðarsömu baráttu sem er fram undan. Undantekningin frá reglunni er Sjálfstæðisflokkurinn sem á digra sjóði eftir sölu á byggingarrétti við Valhöll sem núverandi meirihluti í borgarstjórn Reykjavíkur veitti þeim. Sjóður flokksins vegna þessa nemur 500 milljónum króna. Verður hægt að kaupa mörg atkvæði fyrir þá peninga? Það á eftir að koma á daginn.

Við upphaf þessarar snörpu kosningabaráttu sýna síðustu skoðanakannanir hræðilega stöðu hjá stjórnarflokkunum: Sjálfstæðisflokkurinn með 14 prósent og fengi níu þingmenn kjörna en er nú með 17 menn. Þannig myndu tveir falla fyrir borð í Reykjavík, aðrir tveir í Suðvesturkjördæmi, tveir í Suðurkjördæmi og einn í hvoru norðurkjördæmanna. Ekki þarf að búast við því að þetta fari svona illa hjá flokknum. Hann mun berjast fyrir því að ná 20 prósenta fylgi með miklum peningaútlátum í kosningabaráttunni og öðrum tiltækum ráðum. Framsókn mælist með sex prósent sem gæfi flokknum fjóra þingmenn en hann hefur nú 13 þingsæti. Ef svo færi kæmu þessir þingmenn allir af landsbyggðinni. Verst er þó staða Vinstri grænna sem fengi fjögur prósent og engan mann kjörinn en flokkurinn hefur nú átta þingmenn. Miðað við afleiki Svandísar Svavarsdóttur við upphaf formannsferils síns í flokknum er ólíklegt að þetta muni breytast að ráði.

Stjórnarandstöðuflokkarnir mælast sumir vel í könnunum núna. Samfylkingin og Miðflokkurinn með 26 og 19 prósenta fylgi. Þeir munu þurfa að halda vel á spöðunum til að verja þetta mikla meinta fylgi. Ekki er víst að það takist þegar til kosninga kemur. En þeir munu berjast eins og aðrir í stjórnarandstöðunni.

Þar sem ekki vinnst tími til að efna til prófkjöra má ætla að fráfarandi stjórnarflokkar stilli upp meira og minna sama þreytta liðinu á lista sína. Lítið verður um nýliðun. Fyrir andstæðinga Sjálfstæðisflokksins er það mikið gleðiefni að áfram verði þar í fremstu röð fólk á borð við Birgi Ármannsson, Hildi Sverrisdóttur, Jón Gunnarsson, Bryndísi Haraldsdóttur, Óla Björn Kárason, Teit Björn Einarsson, Njál Friðbertsson, Vilhjálm Árnason og Ásmund Friðriksson. Sama mun vera uppi á teningnum hjá Framsókn og Vinstri grænum.

Samfylkingin og Miðflokkurinn eru í þeirri stöðu að gert er ráð fyrir stórsigri þeirra. Því er mikil ásókn fólks í að komast í „örugg“ sæti hjá þeim flokkum. Talið er að þeir eigi mikla möguleika á að velja sér mjög öfluga frambjóðenda á listana og það gæti haft mikil áhrif. Þó gæti hinn skammi fyrirvari kosninganna sett strik í reikninginn við val á góðum frambjóðendum.

Hjá Viðreisn er stóra spurningin hvernig Jóni Gnarr verður komið fyrir í framboði en hann er talinn vera mikill fengur fyrir flokkinn. Einnig hefur Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, verið orðuð við forystusæti flokksins i Suðurkjördæmi sem yrði mjög sterkt fyrir Viðreisn. Alla vega hlýtur flokkurinn að skipta þar um forystu. Óljóst er hvernig aðrir stjórnarandstöðuflokkar muni ráða ráðum sínum.

Menn velta því fyrir sér hvaða áhrif það muni hafa að Sjálfstæðisflokkurinn einn virðist hafa úr nægum sjóðum að spila. Þá er vert að hafa í huga að peningar duguðu ekki til að Katrín Jakobsdóttir ynni forsetakosningarnar fyrr á þessu ári. Hún var með eina fínustu auglýsingastofu landsins í þjónustu sinni, langflottustu sjónvarpsauglýsingarnar og lengstu, margar heilsíður í Morgunblaðinu og kosningamiðstöð á einu dýrasta horni Íslands í Tryggvagötu í Reykjavík. Samt vann Halla Tómasdóttir með yfirburðum. Hún stóð fyrir hóflegri kosningabaráttu.

Morgunblaðið barðist með kjafti og klóm fyrir kosningu Katrínar en tapaði. Það að hafa eina dagblað landsins með sér dugði ekki. Mun það duga núna? Varla, reynslan af baráttunni í nýafstöðnum forsetakosningum sýnir að kosningar vinnast í sjónvarpi, útvarpi, á netmiðlum og á samfélagsmiðlum.

Málefnabaráttan fram undan mun vitanlega skipta miklu máli. Bjarni Benediktsson reynir að breiða yfir það að ríkið hefur verið rekið með halla öll valdaár hans. Ekki er annað hægt en að undirstrika að ríkisfjármálin eru í ólestri. Ríkisbáknið þenst út. Hvar en nú gamla góða „BÁKNIÐ BURT“ sem ungir sjálfstæðismenn lögðu áherslu á? Nú er það ekki bara BÁKNIÐ KJURT, heldur stækkun og aukning ríkisbáknsins á öllum sviðum.

Einnig verður minnt á þá leiðu staðreynd að Bjarni Benediktsson endist býsna illa í embætti forsætisráðherra. Hann tók við núverandi vinstri stjórn Katrínar Jakobsdóttur í apríl á þessu ári og tilkynnir nú um endalok hennar.

Loks er að nefna að beðið er eftir nýju innantómu slagorði Framsóknar. Síðast var það „Er ekki best að kjósa Framsókn“, sem lýsti mikilli uppgjöf. Hvað nú?

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar fór með samgöngumál í þessari vinstri stjórn í meira en 6 ár og nú er vegakerfi landsins í ólestri og hættulegt. Blasir ekki við að slagorð Framsóknar að þessu sinni verði HOLAN Í VEGINUM?

- Ólafur Arnarson.