Nýr fræðandi og upplýsandi þáttur um leyndardóma mannslíkamans hefur göngu sína á Hringbraut á miðvikudagskvöld og ber hann heitið Líkaminn, en þar verður mörgum áhugaverðustu spurningunum um líkama og sál svarað af fagfólki.
Það er sjónvarpsmaðurinn Sigmundur Ernir Rúnarsson ásamt hjúkrunarfræðingnum Helgu Maríu Guðmundsdóttur sem hafa veg og vanda af þáttagerðinni, en þau munu spyrja þriggja lykilspurninga í hverjum þætti og fá svör við þeim öllum frá læknum, sálfræðingum, sjúkraþjálfurum og öðrum sérfræðingum á sviði heilbrigðisvísinda, jafnt á vettvangi sem og í myndveri.
Þættirnir verða á dagskrá Hringbrautar í allan vetur - og eru áhorfendur hvattir til að senda inn spurningar sem umsjármenn þáttarins munu svo beina til rétta fagfólksins. Eins eru ábendingar um viðmælendur vel þegnar.
Fyrsti þáttur Líkamans er á dagskrá Hringbrautar á miðvikudagskvöld klukkan 20:30 - og verður þar meðal annars spurt um vefjagigt og hvort þungaðar konur megi stunda hvaða íþrótt sem er fram að barnsburði, en þættirnir verða eftirleiðis frumsýndir á þeim tíma.