Nýr jafnvægispunktur í stjórnarsamstarfinu

Síðasta könnun Gallup sýnir tvær athyglisverðar staðreyndir:

Önnur er óvænt og ekki eftir hefðbundnum lögmálum. Hún sýnir að stjórnarflokkunum í heild  mistókst að nýta hófsama kjarasamningana til að auka fylgið.

Hin var löngu fyrirsjáanleg og í góðu samræmi við hefðbundin lögmál. Hún sýnir að VG tókst að nýta kjarasamningana til að færa málefnalega slagsíðu í samstarfinu af sinni hlið yfir á hlið Sjálfstæðisflokksins.

Vel útfærð kynning á kjarasamningunum skilaði ekki fylgissveiflu

Þessi könnun staðfestir framhald á þeirri þróun sem átt hefur sér stað síðustu tólf mánuði að flokkarnir næst miðjunni bæði frá hægri og vinstri, Viðreisn, Samfylking og Píratar, eru jafnt og þétt að styrkja stöðu sína. Þetta eru ekki nýjar fréttir en þær staðfesta að straumfallið er til þessara flokka.

Það athyglisverða er að kjarasamningarnir breyta engu um þessa þróun.  Þegar þeir voru undirritaðir undir merkjum ríkisstjórnarinnar og kynntir í ráðherrabústaðnum áttu flestir von á að stjórnarflokkarnir hver um sig  myndu snúa taflinu við og styrkja stöðu sína mjög verulega á kostnað miðjunnar. Menn áttu jafnvel von á því að flokkarnir gætu nú þegar tryggt framhaldslíf sitt við ríkisstjórnarborðið eftir næstu kosningar.

Þetta gerðist einfaldlega ekki.

Stuðningur við ríkisstjórnina eykst þó, en sú viðhorfsbreyting skilar sér ekki til stjórnarflokkanna sjálfra. Og það er fylgi þeirra sem skiptir máli þegar kemur að kosningum. Segja má að furðu gegni að kjarasamningarnir skuli ekki einu sinni skila stjórnarflokkunum tímabundinni uppsveiflu.

Þetta er ekki síst eftirtektarvert fyrir þá sök að kynningin á samningunum var af hálfu ríksstjórnarinnar mjög vandlega undirbúin og vel sett fram af fagmönnum í almannatengslum. Í þessu ljósi og með hliðsjón af þeim óróleika sem var í samfélaginu eru það engar ýkjur að segja að þessi niðurstaða komi mjög á óvart.

Kyrrstaðan í stjórnarsáttmálanum var betri fyrir íhaldsflokk en róttækan vinstri flokk

Stjórnarsáttmáli VG og Sjálfstæðisflokksins byggðist ekki á málamiðlunum eins og hefðbundið er við stjórnarmyndanir. Málamiðlun í  stjórnarsáttmála hefði sýnt meiri breytingar en íhaldsflokkurinn á hægri vængnum boðaði en um leið minni breytingar en róttæki vinstri flokkurinn boðaði.

Stjórnarflokkarnir fóru aðra leið. Þeir sömdu bara um pólitíska kyrrstöðu eða óbreytt ástand. Mörgum fannst það vera besta leiðin til að tryggja stöðugleika. Það var í raun pólitíska söluvaran með stjórnarmynduninni.

En af sjálfu leiddi að íhaldsflokkurinn stóð málefnalega betur að vígi gagnvart kjósendum sínum. Að sama skapi var róttæki vinstri flokkurinn berskjaldaður andspænis baklandi sínu. Málefnalega fórnaði VG því miklu.

Í samræmi við þetta hafa skoðanakannanir stöðugt sýnt fylgishrun VG. Sjálfstæðisflokkurinn hefur á hinn bóginn haldið sínu þar til nú. Í raun hefur stjórnin fram til þessa virkað málefnalega eins og um væri að ræða eins flokks stjórn Sjálfstæðisflokksins.

Katrín breytir ímynd aðhalds og festu í ímynd aukinna útgjalda og óvissu

Það var strax ljóst að kjarasamningarnir í byrjun þessa árs yrðu fyrsta og sennilega eina tækifæri VG til að vinna málefnalega til baka það sem tapaðist í kyrrstöðusáttmálanum. Með hæfilegri einföldun er VG ímynd ríkisútgjalda og gjarnan óvissu í ríkisfjármálum en Sjálfstæðisflokkurinn ímynd aðgæslu og festu. Þetta eru tveir ólíkir merkimiðar.

Segja má að Katrínu Jakobsdóttur hafi tekist að nýta kjarasamningana til að koma útgjaldaímynd á ríkisstjórnina. Það skilar sér strax í þessari skoðanakönnun; mest með því að VG nær aðeins til baka fylgi frá Sósíalistaflokknum. Staða VG í stjórnarsamstarfinu hefur því breyst verulega. Þau hafa fært slagsíðuna af sinni hlið yfir á hlið Sjálfstæðisflokksins.

Bjarna Benediktssyni tókst við stjórnarmyndunina að varðveita þá ímynd að Sjálfstæðisflokkurinn stæði fyrir aðhald og festu í ríkisfjármálum. Það var engin málamiðlun í því efni. Meira að segja óbreytt samneyslustig.

Nú blasir allt í einu við ranghverfan á þeirri mynd. Í stað aðhalds og festu koma stóraukin útgjöld og minni tekjur.  Þetta býr til óvissu sem oftast er fylgifiskur vinstri stefnu í ríkisfjármálum. Og fylgið lækkar strax. Ekki er annað sjáanlegt eins og sakir standa en að þessi varnarstaða verði óbreytt fram að kosningum.

Óvíst að nýr jafnvægispunktur í samstarfinu endurspeglist í betra jafnvægi þjóðarbúskapnum

Þetta er pólitísk grundvallarbreyting á stjórnarsamstarfinu. Og hún er að því leyti erfiðari fyrir Sjálfstæðisflokkinn sem stærsta flokkinn í ríkisstjórninni að forystan er ekki á hans hendi.

Segja má að með stjórnarsáttmálanum hafi Bjarna Benediktssyni verið falið að framkvæma stefnu Sjálfstæðisflokksins í ríkisfjármálum og Katrínu Jakobsdóttur að framkvæma stefnu Sjálfstæðisflokksins í öryggis- og varnarmálum.

Eftir kjarasamningana er staðan sú að Bjarni Benediktsson hefur fengið það nýja hlutverk að draga fána VG í ríkisfjármálum að húni en Katrín Jakobsdóttir heldur áfram að framkvæma stefnu Sjálfstæðisflokksins í öryggis- og varnarmálum.

Ekki fer á milli mála að kominn er nýr jafnvægispunktur í stjórnarsamstarfið. Hitt er meira álitamál hvort sú breyting muni endurspeglast í betra jafnvægi í þjóðarbúskapnum. Reyndar er það mikilli óvissu undirorpið svo ekki sé dýpra í árinni tekið.