Nýr forseti ASÍ í sjónmáli

Línur virðast vera farnar að skýrast um það hver verður næsti forseti ASÍ en framhaldsþing sambandsins verður haldið á fimmtudag og föstudag í næstu viku.

Sem kunnugt er leystist 45. þing ASÍ upp er það var haldið síðastliðið haust og ekki tókst að kjósa sambandinu nýjan forseta. Ragnar Þór Ingólfsson, sem talið hafði verið nær öruggt að yrði kosinn forseti á þinginu, dró framboð sitt til baka og gripið var til þess ráðs að fresta þinginu til vors og að Kristján Þórður Snæbjarnarson, sem verið hafði starfandi forseti frá því að Drífa Snædal sagði óvænt af sér í fyrra, sæti til vors.

Síðan þá hefur verkalýðshreyfingin verið í nokkurri upplausn og forystuvandinn áþreifanlegur. Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, hefur leikið einleik og dró meðal annars félagið út úr samfloti við önnur verkalýðsfélög og -samtök í kjarasamningum fyrir síðustu áramót. Svo fór að hún þurfti að lokum að sætta sig við sams konar samning og Starfsgreinasambandið eftir verkfallsaðgerðir. Þá hefur Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins, ekki viljað ljá því máls að setjast í forsetastól.

Eftir því sem nær dregur framhaldsþingi ASÍ hefur orðið ljóst að forystuvandinn er mikill. Ragnar Þór ætlar ekki að bjóða sig fram og ekki heldur Sólveig Anna. Þá hefur Kristján Þórður lýst því yfir að hann sé ekki í kjöri.

Mikið hefur verið fundað í verkalýðshreyfingunni að undanförnu og allt kapp lagt á að finna einhvern boðlegan sem næsta forseta ASÍ. Ljóst er að sambandið er í miklum ólgusjó og ekki á hvers manns færi að standa þar í stafni.

Hringbraut hefur hlerað að nú sé að myndast samstaða um næsta forseta. Finnbjörn Hermannsson, fráfarandi formaður Byggiðnar, er nefndur sem reynslubolti sem hafi til að bera bæði reynslu og burði til að leiða ASÍ næstu tvö ár þar til vænlegur framtíðarforseti finnst.

Finnbjörn hefur verið formaður Byggiðnar í 26 ár og hugðist stíga til hliðar á aðalfundi á næstunni. Nú lítur út fyrir að hans bíði krefjandi verkefni við að reyna að halda ASÍ skútunni á floti þótt brotsjóir gangi yfir hana.