Nýr forseti ASÍ í haust

Eftir að Sólveig Anna Jónsdóttir vann sigur í formannskosningu Eflingar má ljóst vera að dagar Drífu Snædal, forseta ASÍ, í embætti eru senn taldir. Þing ASÍ verður haldið í október á þessu ári. Þá verður kjörinn nýr forseti vegna þess að Drífa hefur ekki trúnað þeirra sem öllu ráða nú í verkalýðshreyfingunni, Sólveigar Önnu og Ragnars Þórs Ingólfssonar, formanns VR.

Hvorugt þeirra mun þó geta tekið við embætti forseta ASÍ, enda þurfa þau bæði að sinna formennsku í stéttarfélögum sínum, Eflingu og VR. Samtals eru þessi tvö verkalýðsfélög með um helming allrar verkalýðshreyfingarinnar innan sinna vébanda. Og einnig um helming allra sjóða hreyfingarinnar. Efling situr á 20 milljarða sjóðum og staða VR mun vera enn sterkari. Vald þessara tveggja formanna er ógnvænlegt og bæði eru þau þannig innstillt að þau munu ekki hika við að nota sjóðina í átökum.

Á þessari stundu er Vilhjálmur Birgisson, verkalýðsleiðtogi á Akranesi, líklegastur til að taka við af Drífu Snædal sem forseti ASÍ næsta haust. Margt getur þó breyst á rúmlega hálfu ári.

- Ólafur Arnarson