Ill meðferð á ungum öryrkja í Keflavík hefur vakið mikla athygli og kallað fram margvísleg viðbrögð bæði einstaklinga, samtaka og yfirvalda. Nýr dómsmálaráðherra var knúinn til að segja sína skoðun á framferði sýslumannsins á Suðurnesjum sem lét það viðgangast að 57 milljón króna hús var slegið útgerðarmanni á 3 milljónir króna og ungi öryrkinn stóð uppi allslaus og búinn að missa heimili sitt og fjölskyldu sinnar. Í stað þess að nýi ráðherrann léti til sín taka með jákvæðum hætti þá féll hún í þá gryfju að fara í fortakslausa vörn fyrir embættismanninn sem kom fram með þessum ógeðfellda hætti. Sýslumaður átti vitanlega að fresta uppboðinu, ógilda það sem gerðist og freista þess að gefa unga öryrkjanum tóm til að leita aðstoðar.
Það gerði sýslumaðurinn alls ekki og ráðherra bakkaði ósómann upp. Guðrún lét nægja að freista þess að skella skuldinni á bæjaryfirvöld í Reykjanesbæ sem var ómaklegt.
Þetta mál er vitanlega flókið og alls ekki einfalt að ráða í það. Inn í blandast slys, örorkubætur, sorgleg vegferð og því miður meint fíkniefnabrot. Þess þá heldur hefðu yfirvöld átt að láta málið til sín taka með það að markmiði að hjálpa - ekki refsa og svifta öryrkjann eign sinni og heimili.
Guðrún Hafsteinsdóttir hefði átt að kynna sér málið miklu betur og vanda aðkomu sína að því ef hún á að eiga von til þess að láta taka sig alvarlega í því embætti sem hún hefur þráð svo heitt og er nú loks komin í. Ef hún gerir fleiri afglöp af þessu tagi þá gæti endað með því að þjóðin fari að sakna hins umdeild forvera hennar, Jóns Gunnarssonar. Það hefur væntanlega ekki verið ætlun Guðrúnar.
Þó Guðrún Hafsteinsdóttir hafi fallið á þessu fyrsta prófi sem dómsmálaráðherra þá er von til þess að betur gangi næst því hún hefur nú ráðið mjög hæfan aðstoðarmann, Hrein Loftsson hæstaréttarlögmann, þrautreyndan bæði í opinberum störfum og í einkageiranum. Vonandi beinir hann nýja ráðherranum á réttar brautir. Ekki veitir af.
- Ólafur Arnarson.