Nýr búnaður stórbæti aðflug á akureyri

Breytingar á aðflugstækni og þróun í þeim geira kunna að stórbæta skilyrði til lendinga og flugtaka á Akureyrarflugvelli á næstu misserum. Þetta herma traustar heimildir Hringbrautar.

Í síðustu viku voru gerðar athuganir með nýjar flugleiðir sem hafa vakið vonir um að með nýjum búnaði á jörðu niðri verði flugmenn ekki bundnir af sömu kvöðum með beygjur og flugferla áður en lent er og gildir í dag. Með nýjum tækjum á jörðu niðri kann að vera hægt að minnka áhrif fjallanna í grennd við flugvöllinn sem orðið hafa til þess að flugmenn á stórum þotum, óvanir aðstæðum, hafa horfið frá lendingum. Nýleg mál sem upp hafa komið hafa vakið spurningar um hvort nær væri að horfa til Húsavíkurflugvallar í beinu millilandaflugi.

Fréttaskýring Hringbrautar í gær um hugmyndina á að færa Akureyrarflugvöll til Húsavíkur eða austur í Aðaldal þar sem lengi hefur verið 1600 metra flugbraut, mismikið nýtt þó, vakti mikla athygli. Um fátt var meira rætt en hvort með Vaðlaheiðargöngum og styttri ferðatíma til Aðaldals, auknum umsvifum í Þingeyjarsýslu vegna Bakkauppbyggingarinnar og fleiri breytinga væri rétt fyrir  Norðlendinga að skoða nýja möguleika í millilandaflugi, enda skipti það ferðalang ekki öllu hvort hann þurfi að ferðast í 30-45 mín innan Norðurlands fyrir eða eftir flug. Mestu skipti fyrir Norðlendinga að öruggt megi telja að flugvél sem bókað er far með út frá Norðurlandi lendi líka á Norðurlandi, því meginávinningur þess að fljúga beint út frá Akureyri felist í að sleppa við langt ferðalag og kostnaðarsamt til Keflavíkur.

Á það er bent að flugvellir snúist þó um mun meira en flugbrautir og lendingarskilyrði. Isavia hefur byggt upp gríðarlega þjónustu við Akureyrarflugvöll. Má minna á lykilþjónustu vallarins þegar gaus í Eyjafjallajökli.

Sumir bæjarfulltrúar á Akureyri telja vel þess virði að skoða allar hugmyndir eins og fram kom í gær. Friðrik Sigurðsson, forseti sveitarstjórnar Norðurþings, segir Þingeyinga spennta yfir þessum hugmyndum. Ef útbúin yrði sérstök flugstöð fyrir millilandaflug við suð-vestur enda flugbrautarinnar á millilandaflugvellinum í Aðaldal tæki íbúa á Akureyri aðeins um 30 mínútur  að renna í Aðaldalinn þegar jarðgöngin verða tilbúin.

Friðrik segist fagna tillögum bæjarfulltrúanna á Akureyri sem rætt var við í fréttaskýringu Hringbrautar. Þar kom fram að aukin þíða væri í samskiptum Þingeyinga og Eyfirðinga sem teldist jákvætt þegar næstu skref yrðu tekin. Forseti sveitarstjórnar Norðurþings segir:„Ég fagna orðum bæjarfulltrúanna í þessu máli og tel þau bera vott um raunsæi í málinu. Ég hvatti á sínum tíma Kristján Möller þáverandi samgönguráðherra að hætta við lengingu Akureyrarflugvallar, því þó hann lengdi hann langt út í haf og inn allan Eyjafjörð þá lækkuðu fjöllin ekkert!“

Í rannsókn sem Friðrik vann sjálfur þegar hann nam lauk námi í flugrekstrarfræði, sérstaklega til að geta rætt við ráðherra og aðra sem hafa með uppbyggingu flugs að gera, segir að ekki sé hægt að finna upplýsingar um burðarþol brautarinnar í Aðaldal hjá Ísavia. Til að hægt væri að hefja beint flug frá öðrum löndum til vallarins þyrfti að lengja brautina og staðfesta burðarþol gagnvart þotum. Einnig þyrfti að bæta aðstöðu í flugstöðinni svo sem gagnvart vegabréfaeftirliti, vopnaleit og aðskilnaði farþega. Sömuleiðis þyrft að auka tækjabúnað vallarins með landgöngustiga og búnaði til lestunar og losunar farangurs. Auk þess þyrfti að tryggja aðgengi að þotueldsneyti.

Hringbraut hefur ekki náð tali af forsvarsmönnum Isavia.

(Þessi fréttaskýring Björns Þorlákssonar birtist fyrst í Kvikunni á Hringbraut.is)