Veganúar mánuðurinn er brostinn á með öllum sínum dásamlegu vegannýjungum og nú hefur Dominos bætt matseðil sinn og er með þrenns konar meðlæti á matseðlinum sem er vegan, þar af tvennt nýtt grænkerum til mikillar gleði. Þá ber fyrst að nefna klassísku góðu brauðstangirnar sem núna hafa verið baðaðar í sterkri cajunkryddolíu, vinsæla kanilgottið sem hefur slegið í gegn er nú bakað úr létta deiginu en þar er notuð kanilolía í stað kanilsmjörs. Að lokum eru það kartöflubátarnir sem eru og hafa ávallt verið vegan.
Eins og fram kemur í máli Helgu Thors markaðsstjóra Dominos á mbl.is er þetta forsmekkurinn að veganúrvali á Veganúar og verður úrvalið aukið hægt og rólega út janúar. Einnig segir hún að þess megi jafnframt geta að pítsan Vegas er veganpítsa en hún kom á matseðil í fyrra og var unnin með veganrýnihópi Dominos. Helga segir að það sé ekki hægt að segja að grænkerar séu stór hópur viðskiptavina hjá Dominos, en hann fari stöðugt stækkandi, auk þess sem Vegas hefur verið vinsæl hjá grænmetisætum og öðrum sem huga að heilsunni almennt. Það sé því afar ánægjulegt að geta boðið upp á breiðara vöruúrval fyrir þann hóp.