Bretar hafa komið sér í mestu stjórnmálakreppu sem þjóðin hefur lent í á friðartímum með BREXIT-gönuhlaupinu. Æ fleiri landsmenn hafa áttað sig á því að þjóðinni verður ekki bjargað úr þeirri sjálfheldu sem hún er komin í nema með nýrri þjóðaratkvæðagreiðslu sem gæti ekki endað með öðru en áframhaldandi aðild að ESB. Í dag hefur múgur og margmenni gengið um götur London og krafist nýrrar þjóðaratkvæðagreiðslu. Þegar hafa fjórar milljónir kjósenda skrifað undir á vefnum kröfu um að hætt verði við útgöngu Bretlands úr ESB.
Flestum er nú orðið ljóst að þjóðaratkvæðagreiðslan sem ákvað útgöngu með naumum meirihluta er þegar búin að valda Bretlandi ómældum skaða. Þjóðin er í pólitískri kreppu og stefnir í efnahagslega kreppu ef fram heldur sem horfir. Hagvöxtur hefur minnkað, atvinnuleysi hefur aukist, gjaldmiðill landsins hefur fallið og dregið hefur úr fjárfestingum. Alþjóðleg stórfyrirtæki eru að yfirgefa landið og flytja Evrópustarfsemi sína yfir á meginland Evrópu með ómældum afleiðingum fyrir Breta. Fjármálamiðstöðin í London er í mikilli vörn en stórir bankar flytja starfsemi sína og höfuðstöðvar frá London til Frankfurt, Parísar, Luxemborgar eða Sviss. Við þetta missir England mikinn fjölda hálaunastarfsmanna úr landi og tapar miklum skatttekjum. Alþjóðlegu bankarnir og fyrirtækin vilja ekki lengur veðja á England vegna BREXIT-klúðursins.
Forsætisráðherra Bretlands ræður ekki við stöðu mála. Teresa May hefur ekki tök á flokki sínum, hvað þá þinginu. Stjórnarandstaðan er einnig veikburða. Það er engin sýnileg forysta í Bretlandi sem er líkleg til að leiða þjóðina út úr þeim ógöngum sem hún hefur komið sér í. ESB mun ekki veita Bretum neinar frekari tilslakanir þannig að líklegast er að þeir yfirgefi ESB án samnings. Það yrði Bretlandi dýrkeypt og yrði enn til að dýpka þá pólitísku og efnahagslegu kreppu sem blasir nú við.
Ekki er að undra þó almenningur geri nú tilraun til að taka málin í sínar hendur. Sá mikli mannfjöldi sem safnast hefur saman í London í dag er til vitnis um það. Ekki þyrfti að koma á óvart þó fundarhöld dagsins og kröfugöngur í höfuðborginni marki upphaf mikilla tíðinda þar sem stjórnvöld verði knúin til að efna til nýrra kosninga um framtíð Bretlands gagnvart ESB. Þá gæfist þjóðinni tækifæri til að vinda ofan af vitleysiunni. Það tækifæri myndu kjósendur væntanlega nýta sér til fullnustu.