Skelfing var lítill stíll yfir fundi formanna vinstri stjórnarinnar í gær þegar þeir kynntu svokallaða fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar. Talað hafði verið um að nú kæmu fram tillögur sem ættu eftir að slá verulega á verðbólgu og snúa öfugþróun síðustu tíma til betri vegar.
En hver er niðustaða fundar þeirra og hvert er innihald þeirrar áætlunar sem vinstri stjórn Katrínar Jakobsdóttur sendir núfrá sér?
Í stuttu máli er hér um að ræða frekar innihaldslausa moðsuðu sem mun ekki skila neinu í baráttunni við verðbólgu á Íslandi. Það mun ekki gagnast í baráttunni við vandamálið að Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, sem er nú rúin bæði trausti og fylgi, haldi því fram að hér sé um markvert innlegg í baráttuna að ræða.
Annað hvort fer hún með skipuleg ósannindi eða þá er hún ekki betur að sér um þessi flóknu og mikilvægu mál. Það er því miður hugsanlegt og það er heldur ekki gott.
Í umræddri fjármálaáætlun er nefnt eitt og annað og fátt af því s er líklegt til að hafa áhrif á verðbólgu – fyrr en eftir langan tíma. Reyndar ekki fyrr en núverandi vinstri stjórn Katrínar Jakobsdóttur verður farin frá. En hvernig bregðast helstu aðilar vinnumarkaðarins við?
Ragnar Þór Ingólfsson gefur lítið fyrir þetta útspil sem eðlilegt er. En hvað segir talsmaður Samtaka atvinnulífsins, sem hingað til hefur leyft ráðherrum að njóta vafans? Halldór Benjamín Þorbergsson hjá Samtökum atvinnulífsins segir: „Vandamálið er hins vegar þetta að þrátt fyrir fögur fyrirheit um aðhaldssama fjármálaáætlun þar sem stigin yrðu stór skref í að koma böndum á óhóflegan vöxt ríkisútgjalda eru efndir því miður litlar. Þær aðhaldsaðgerðir sem tíundaðar eru hrökkva mjög skammt ...“
Þegar maður, handgenginn forystu Sjálfstæðisflokksins, sem talið er að hafi að sækjast eftir forystu þar á bæ, talar með svo afgerandi hætti, er staðan ekki góð.
En hvað felst í umræddri áætlun?
Það á að fækka ríkisstofnunum svona hægt og hljótt á löngum tíma. Mun það hafa áhrif á núverandi óðaverðbólgu? Nei.
Það á að hækka skatta á lögaðila (fyrirtæki) um eitt prósent á næsta ári – sem greiðist þar með á þarnæsta ári. Mun það lækka núverandi óðaverðbólgu.? Nei.
Það á að gera „aðhaldskröfu“ á ríkisstofnanir. Jæja. Hefur það ekki verið sagt margoft áður og jafnan án árangurs?
Það á að hætta við að reisa þjóðarhöll sem búið er að lofa margoft. Hversu oft hafa verið haldnir fjölmiðlafundir í Laugardal til að tilkynna þjóðinni um að nú væri komin ríkisstjrón sem ætlaði sannarlega að aflétta af landsmönnu þeirri skömm að ekki væri unnt að hafa nokkur þúsund auð sæti tiltæk á landsleikjum og öðrum leikjum. Vonandi birta fjölmiðlar myndir af ráðherrum og öðrum handsala þessi áform – sem nú hafa verið slegin af í valdatíð vinstri stjórnar Katrínar Jakobsdóttur.
Ekkert af því sem fram kemur í umræddri fjármálaáætlun er líklegt til að skipta verulegu máli í baráttunni við óðaverðbólguna sem geisar nú á Íslandi í boði Seðlabanka Íslands og rikisstjórnarinnar. Fjármálaáætlunin er í besta falli aum. Í versta falli gagnslítil.
En hvaða framkvæmdir og fjárfestingar ríkisins lentu ekki í frestun eða niðurskurði? Bygging Landsspítalans. Að sjálfsögðu og um það er varla deilt. Þá verður haldið áfram með nýja brú yfir Ölfursá enda bætir hún verulega samgöngur við heimili samgönguráðherrans sem er með lögheimili að Syðra-Langholti í Hrunamannahreppi.
Ekki er hins vega vikið að fjárfestingum ríkisins í monthúsum á dýrustu lóðum landsins í miðborg Reykjavíkur. Til hvers þurfti að kaupa sex milljarða hús utan um utanríkisráðuneytið sem fer ágætlega um á Rauðárstíg? Það kostar svo aðra sexmilljarða að innrétta kontórana og tölvuvæða þá. Hefði ekki mátt spara þetta, úr því að ríkisvaldið þykist ætla að auka aðhald?
Hvað um 5 hæða monthöll fyrir skrifstofur starfsmanna Alþingis og þingmanna við Vonarstræti. Var mikil þörf á því? Er allt þetta fólk ekki með viðunandi aðstöðu núna?
Því miður mætti lengi áfram telja. Núverandi ríkisstjórn hefur þanið ríkisbáknið meira út en áður hefur gerst hjá einni ríkisstjórn í lýðveldissögunni. Umrædd fjármálaáætlun tekur engan veginn á þeirri þróun. Því miður.
- Ólafur Arnarson.