Nýgengi fíknsjúkdóma karla og kvenna á Íslandi hefur farið minnkandi á allra síðustu árum, en hafði farið vaxandi í langan tíma á árunum fyrir 1990. Enn er þó vandinn verulegur, einkanlega hjá eldri konum, þótt við blasi í stóru myndinni að nýgengi sjúkdómsins hefur minnkað.
Þetta kemur fram í gagnagrunni sjúkrahússins á Vogi, en þar hafa um árabil verið skráðar upplýsingar um nýgengi áfengis- og vímuefnasjúkdómsins, en hvergi á landinu er að finna nákvæmari gögn um þróun hans hér á landi frá því starfsemi SÁÁ hófst árið 1977, fyrir hartnær 40 árum.
Þegar nýgengishlutfall í hinum ýmsu aldurshópum karla og kvenna er skoðað sést að það hefur stöðugt lækkað hjá körlum sem eru 25 ára og eldri frá árinu 1990. Vandinn fór stöðugt vaxandi hjá fólki yngra en 25 ára fram til ársins 2002 en hefur lagast verulega síðustu 12 árin bæði hjá konum og körlum í þessum aldurshópi. Dregið hefur úr áfengis- og vímuefnavanda kvenna á aldrinum 25-54 ára frá árinu 1990 en vandinn er enn vaxandi meðal kvenna sem eru 55 ára eða eldri.
Þegar á heildina er litið hefur ástandið lagast mikið síðustu 12 árin. Þó þarf að hafa í huga að ástandið getur verið breytilegt eftir vímuefnum og getur versnað hvað varðar ákveðin vímuefni þó að það sé að lagast þegar á heildina er litið eins og hér er gert.
Út frá tölum um mannfjölda á Íslandi og tölum um nýliða í meðferð og aldur þeirra, má reikna líkur á því að fólk komi einhvern tíma á ævinni í meðferð vegna áfengissýki eða annars vímuefnavanda. Þannig má útbúa reiknimódel sem segir fyrir um hvert stefnir. Það hefur verið gert hjá SÁÁ frá árinu 1992. Þeir útreikningar sýna að líkur fyrir því að koma á Sjúkrahúsið Vog voru stöðugt að aukast fram til ársins 2002. Það ár voru líkurnar fyrir því að koma á Vog fyrir karla 23,4% og fyrir konu 11,7% og höfðu aldrei verið hærri. Mikil aukning hafði verið á neyslu allra vímuefna fimm árin þar á undan, bæði áfengis, lyfja og ólöglegra vímuefna. Síðan hafa líkurnar minnkað.
Ef nýgengistölur frá Vogi fyrir árin 2006 til 2009 eru lagðar til grundvallar og tölur um mannfjölda á Íslandi þann í desember 2007, verður niðurstaðan að líkurnar séu um 15,6%. Líkurnar eru mismunandi eftir aldri og kyni.
Samkvæmt þessum útreikningum eru 18,6% líkur á því að íslenskur karlmaður, sem nú er 15 ára gamall, muni leita sér meðferðar vegna áfengissýki eða annarrar vímuefnaneyslu einhvern tíma á ævinni. Þegar konur eiga í hlut eru líkurnar aftur á móti 9,6%.
Um 10,8% líkur eru á því að íslenskur karlmaður komi til meðferðar í fyrsta sinn meðan hann eru á aldrinum 20 til 50 ára. Eftir fimmtugt dregur úr líkunum sem verða þá um 4,2%. Þrjátíu af hverjum þúsund karlmönnum á aldrinum 16 til 19 ára munu koma á Vog á því aldursskeiði. Líkur til þess að konur á aldrinum 20 til 50 ára komi á Vog eru 5,0%. Samkvæmt þessum útreikningum munu 19 konur af hverjum þúsund koma á Vog fyrir tvítugt.
Nýgengi (incidence) er mikilvægt hugtak í faraldsfræði sem segir til um hve mikil hætta er á því fyrir einstaklinga að fá ákveðinn sjúkdóm og spáir fyrir um byrði þjóðfélagsins af sjúkdómnum í framtíðinni. Nýgengi er skilgreint sem tilurð nýrra sjúkdómstilfella af einhverjum ákveðnum sjúkdómi á tilteknum tíma deilt með fjölda þeirra einstaklinga sem eru í hættu að fá sjúkdóminn.