Nýbakaðir og ilmandi kleinuhringir? þá eru þessir málið

Eygló Harðar fer á kostum í eldhúsinu þessa dagana og er iðin við að galdra fram ómótstæðilega ljúffenga rétti sem kitla bragðlaukana og gefa lífinu lit. Ilmur er svo lokkandi úr eldhúsinu hjá Eygló.

Nýbakaðir og ilmandi kleinuhringir hljómar vel, en hvað með heimatilbúna, nýbakaða og ilmandi kartöflukleinuhringi í hvítu flórsykurskýi?  Þeir sem voru að hafa áhyggjur af brotthvarfi Krispy Kreme geta núna andað léttar og bakað sína eigin kleinuhringi, og nýtt allar kartöflurnar sínar í leiðinni.  „Lofa að þetta voru bestu afgangar sem ég hef smakkað,“ segir Eygló og brosir sínu breiðasta brosi.

Kartöflukleinuhringir
(6-8 stk. kleinuhringir)

60 ml mjólk, volg
1 msk. sykur
½ tsk. þurrger
2 kartöflur, soðnar, skrældar, volgar
½ egg
2 msk. smjör, brætt
¼ tsk lyftiduft
¼ tsk. matarsódi
110 g hveiti
Salt eftir smekk
Kókosolía til að steikja upp úr
Flórsykur til að strá yfir

Blandið saman volgri mjólkinni við sykurinn og þurrgerið. Hrærið vel saman og látið standa á hlýjum stað þar til gerið myndar froðu á yfirborðinu.

Til að fá kartöflurnar sem léttastar í deiginu er best að nota kartöflupressu, annars stappa þær vel og hræra svo í þeim með gaffli til að gera þær loftkenndari. Blandið saman við smjörið, athugið að kæla það niður svo eggið eldist ekki. Hrærið eggið og blandið helmingnum af því saman við. Blandið saman við gerblönduna.

Hveiti, lyftiduft og matarsódi ásamt salti sett í skál. Hinum hráefnunum blandað saman við, og hrært varlega saman þar til allt hveitið hefur blandast saman við vökvann og deig hefur myndast. Ekki hnoða neitt frekar. Setjið yfir skálina hreinan klút og látið standa í kæli 6-8 klst.

Að þeim tíma liðnum er kókosolían brætt, passið að hafa hana ekki of heita. Deigið flatt út og kleinuhringir skornir út. Það eru víst til sérstök form til að skera út kleinuhringi en þar sem ég átti ekkert slíkt fann ég niðursuðudós og tappa af flösku í endurvinnsluskápnum í réttum stærðum. Eldhúspappír settur á disk til að taka við hringjunum eftir steikingu.

Ágætt að prófa hitastigið á olíunni með litlu hringjunum innan úr kleinuhringjunum. Kleinuhringirnir eru svo steiktir, snúið við þegar þeir eru orðnir fallega gullbrúnir.  Flórsykri stráð yfir.

Þessir stoppuðu ekki lengi á disknum, rétt náði að smella mynd af þeim. Það var eiginlega staðið yfir mér á meðan. Dásamlega góðir. 

Athugið að þetta er lítil uppskrift þar sem ég var að nýta upp afgangskartöflur og átti aðeins 110 g (nákvæmlega) af hveiti í skápunum. Fínt að tvöfalda hana allavega.  Njótið vel.