Ný valdablokk í Sjálfstæðisflokknum – svar við ákalli um uppstokkun

Það er engin tilviljun að nú sé tekist á um það í Sjálfstæðisflokknum hvort landsfundur flokksins fari fram í lok febrúar og byrjun mars nk. eins og ákveðið var eða hvort honum verði frestað fram á haust. Þeir sem vilja breytingar á forystunni strax til að hefja endurreisnarstarf vilja ekki bíða en hinir sem vona að tíminn lækni öll sár vilja fresta.

Ný valdablokk gæti verið að myndast í flokknum sem vill koma strax á slysstað, taka til og hefja nýja vegferð, nýjar áherslur með nýtt forystufólk í stafni. Margir héldu að Guðlaugur Þór Þórðarson væri búinn að fá nóg af átökum og myndi ekki taka fleiri slagi. Hann er hins vegar einungis 57 ára að aldri sem er fínn aldur fyrir forystumenn í stjórnmálum ef þeir eru vel á sig komnir og heilsuhraustir. Nú er talað um það að hann vilji gera lokaatrennu að formennsku í Sjálfstæðisflokknum og sé að mynda bandalag um stöður formanns, varaformanns og ritara.

Ný valdablokk gengur út á að Guðlaugur Þór verði formaður, Guðrún Hafsteinsdóttir varaformaður og Ólafur Adólfsson ritari flokksins, nái þau öll kosningu á næsta landsfundi. Guðlaugur Þór er nú annar þingmaður í Reykjavík norður en hann leiddi lista flokksins þar og fékk tvo þingmenn kjörna en Samfylkingin fjóra og Viðreisn þrjá. Guðrún Hafsteinsdóttir leiðir lista flokksins í Suðurkjördæmi og er annar þingmaður kjördæmisins. Hún missti forystusætið til Ásthildar Lóu Þórsdóttur hjá Flokki fólksins sem nú er orðin ráðherra. Ólafur Adolfsson er öflugur sigurvegari og leiðtogi. Hann er fyrsti þingmaður í Norðvestur kjördæmi. Hann tók það sæti af Framsókn sem er nú með sinn mann sem fimmta þingmann kjördæmisins. Ólafur er farsæll lyfsali á Akranesi sem hefur rekið sitt fyrirtæki þar og á auk þess glæstan feril sem knattspyrnumaður í sigursælu liði ÍA í knattspyrnu. Ólafur er nýjabrum í Sjálfstæðisflokknum, maður sem vænta má mikils af. Hann og Guðlaugur Þór eru vinir frá gamalli tíð.

Sjálfstæðisflokkurinn verður nú að horfast í augu við valdalausa stjórnarandstöðu næstu árin eftir ellefu ár í ríkisstjórn. Undir formennsku Bjarna Benediktssonar hefur flokkurinn misst fylgi sitt niður úr 36,6 prósentum þegar Geir Haarde stýrði flokknum niður í 19,4 prósent sem Bjarni rembist nú við að kalla „varnarsigur“. Fjöldi flokksmanna sér þetta og vill tafarlausar breytingar. Nú dugar ekkert „gluggaskraut“ eins og áður var sagt um annan flokk, reyndar af yfirgripsmikilli ósmekkvísi. Nú þarf uppstokkun og vilja til að breyta um takt. Það þarf að finna gamla Sjálfstæðisflokkinn. Finna það sem hann stendur fyrir en ekki það sem hann hefur hrakist í undir vinstri forystu Katrínar Jakobsdóttur og Steingríms J. Sigfússonar.

Kjósendur nenna vart að hlusta á úrtölur Bjarna Benediktssonar um að núverandi ríkisstjórn hafi svikið kosningaloforð sín og muni ekki endast lengi. Vill Bjarni rifja upp hvort kjósendur flokks hans hafi kosið hann árið 2017 til að leiða Vinstri græn til öndvegis í ríkisstjórn undir forsæti Katrínar Jakobsdóttur með Steingrím J. Sigfússon í hinu virðulega embætti forseta Alþingis? Full ástæða er til að draga það í efa.

Vert er að hafa í huga að Sjálfstæðisflokkurinn undir forystu Bjarna Benediktssonar hefur ekki haldið út neitt kjörtímabil nema þegar COVID-veiran gerði það að verkum að stjórnmál lágu niðri á Íslandi í tvö ár. Flokkur Bjarna hefur átt aðild að ríkisstjórn fjórum sinnum á ellefu árum og ekki náð að sitja út kjörtímabilið nema í neyðarástandi COVID. Sjálfstæðisflokkurinn var í ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar sem mynduð var vorið 2013. Kjörtímabil hennar var til vors 2017 en stjórnin fór frá haustið 2016 og þá var kosið. Þá varð Bjarni Benediktsson forsætisráðherra í byrjun árs 2017. Stjórn hans féll um haustið og Vinstri stjórn Katrínar Jakobsdóttur tók við völdum 1. desember sama ár. Bjarni entist þá sem forsætisráðherra í 10 mánuði og náði ekki á ávarpa þjóðin á gamlársdag eins og allir forverar hans höfðu gert. Sjálfstæðisflokkurinn var svo burðarás í ríkisstjórninni frá 2021 til 2024 þar sem Bjarni endaði sem forsætisráðherra í 6 mánuði en þurfti að slíta stjórnarsamstarfinu. Ný ríkisstjórn var mynduð fyrir jólin á þessu ári – og enn á ný nær Bjarni ekki að ávarpa þjóðina sem forsætisráðherra á gamlársdag eins og allir forsætisráðherrar þjóðarinnar til þessa hafa gert – nema Bjarni sjálfur árið 2017. Þar bætir hann eigið met!

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar og utanríkisráðherra, hefur sagt í fullri alvöru að Sjálfstæðisflokkurinn sé ekki stjórntækur vegna klofnings og innri átaka. Það er líklega rétt og því ástandi vilja Guðlaugur Þór og fjölmargir stuðningsmenn hans í flokknum breyta sem fyrst. Sem allra fyrst – næsta vor en ekki næsta haust.

– Ólafur Arnarson