Ný fjögurra þátta röð, Karlar og krabbi, hóf göngu sína á Hringbraut í gærkvöld og verður á dagskrá fram í apríl, en þar verður fjallað í þaula um einkenni, meðferðarúrræði og eftirköst þess að greinast með krabbamein í blöðruhálskirtli sem er eitt algengasta krabbamein í körlum.
Í þætti gærkvöldsins ræddu þeir Bárður Tryggvason, fasteignasali og Hinrik Greipsson, gjaldkeri framfara, félags karla með krabbamein af hispursleysi um reynslu sína af því að greinast með krabbamein í blöðruhálskirtli sem hefur haft margvísleg áhrif á líf þeurra, enda þótt þeir lifi góðu lífi í dag. Þáttinn má nálgast inni á hringbraut.is, en hann verður endursýndur á stöðinni í dag.
Karlmenn eru taldir tiltölulega óupplýstir um veikindi af þessu tagi og hafa oft og tíðum leitt þau hjá sér, en mein eins og krabbi í umræddum kirtli getur haft afar alvarlegar afleiðingar ef ekki er gripið inn í ferlið í tíma, en ef svo er gert, getur hins vegar reynst næsta auðvelt að eiga við vandann.
250 karlmenn greinast með krabbamein í blöðruhálskirtli á ári og deyja að jafnaði 50 manns úr sjúkdómnum. Þúsundir karlmanna lifa hins vegar góðu lífi með þessu meini, sem getur ýmist verið hægfara og ekki þarfnast skurðaðgerðar með, ellegar það breiðist svo hratt út að grípa verður til aðgerðar strax.
Afleiðingar og eftirköst þessa krabbameins eru tiltökumál, enda er meinið bundið við eitt af meginstoltum karlmannsins, kirtilinn sem býr til sæðisvökvann - og ef hann er fjarlægður getur það haft í för með sér risvandamál og erfiðleika í kynlífi.
Um allt þetta er rætt af hispursleysi í þættinum Karlar og krabbi á Hringbraut í kvöld, en það er hinn hálfsextugi Sigmundur Ernir sem hefur umsjón með þættinum. Hann er einmitt á þeim aldri sem kallar á skoðun og upplýsingu um krabbamein í blöðruhálskirtli.
Þættirnir eru unnir í samstarfi við Framför, krabbameinsfélag karla.
Fyrsti þátturinn verður sem fyrr segir endursýndur í dag, en annar þáttur er á dagskrá á fimmtudagskvöldið í næstu viku, en þar verður meðal annars rætt við þá Sigurbjörn Þorkelsson og Einar Benediktsson sem báðir hafa greinst með krabbamein í blöðruhálskirtli, þótt glíma þeirra við meinið sé ólík, en Einar skrifar einmitt athyglisverða grein um reynslu sína á pistlasvæði Hringbrautar í dag, svo sem sjá má hér.