Ég er sammála fræðimanni í fjölmiðlaheiminum um að huga þurfi mjög að starfsumhverfi fjölmiðla hér á landi og að ríkisstyrkir kunni að eiga rétt á sér umfram það sem þegar er með rekstri almannaútvarpsins okkar. Sjá frétt hér.
Ef samfélagið lítur á upplýsingakerfi sem eins veigamikinn þátt í hverju þjóðfélagi og t.d. heilbrigðiskerfi og menntakerfi þarf að styrkja heilbrigða fjölmiðlun hér á landi. Til þess eru nokkrar ólíkar leiðir. Ég er aftur á móti ekki sammála þeirri framsetningu að aukin áhrif almennings í breyttri fréttavinnslu samtíðarfjölmiðlunar séu af hinu illa.
Í gamla daga þegar ég starfaði sem blaðamaður á Tímanum fór vissulega mun minna fyrir návígi blaðamanna við hinn „sauðsvarta almúga“ en í dag. Eins og gengur voru helstu heimildarmenn okkar blaðamanna fulltrúar kerfisins, embættismenn, pólitíkusar, aðilar úr viðskipta- og efnahagslífi. Það var sérstök ákvörðun á þeim tíma að ræða við hinn almenna mann eða hlusta yfir höfuð eitthvað á hann. Og maður fékk meiri frið fyrir honum. Það voru valdakarlarnir og kerfiskarlarnir sem héldu að mestu uppi gagnrýni á störf okkar blaða- og fréttamanna – og kannski varð þeim stundum ágengt.
Í nýlegri rannsókn kvörtuðu íslenskir blaðamenn undan auknu návígi við almenning og má rekja til netsins og samfélagsmiðla. Fleiri hafa efasemdir um aukin ítök almennings í fréttamati dagsins í dag. Annað og jákvæðara sjónarhorn er að almenningur hafi valdeflst nokkuð að undanförnu, að hinn almenni maður hafi með breyttum tímum meira um það að segja en nokkru sinni fyrr hvað fjölmiðlar ákveða að setja á dagskrá. Því geta vissulega fylgt gallar – en einnig fjölmargir kostir.
Með sama hætti og almenningur hefur krafist aukinna áhrifa t.d. með því að það þykja ekki lengur góðar pólitískar tvíbökur að kjósendur hafi bara einu sinni á fjögurra ára fresti eitthvað að segja um ríkisstjórn landsins, verða fjölmiðlamenn að þola breytta tíma. Þingmenn fá aukið aðhald frá almenningi vegna Internetsins. Sama má segja um fjölmiðlamenn. Það er mikill misskilningur að hægt sé að staðhæfa að í dag séu allir blaðamenn, leikir sem lærðir, að trúverðugleiki fagstéttarinnar sé í hættu. Trúverðugleiki fjölmiðla er vissulega vandamál en kannski er meiri ástæða til að hafa áhyggjur af rekstrarvanda, eigendavaldi, liðaskiptingum og efnahagspólitík en auknum ítökum almennings. Sumir segja að endurreisn flokksblaðanna sé að eiga sér stað fyrir framan augun á okkur. En að nú sé málgögnunum pakkað inn í Trójuhesta. Ástæða er til að hafa áhyggjur af gagnsæi. Það er efni í annan pistil.
Sérfræðikunnátta reyndra blaðamanna úreldist ekki þótt tækni breytist eða þótt fjölmiðlar hugi meir að því en áður hvað almenningur telur mikilvægt að heyra og sjá. Það sem einum kann að þykja \"æsifrétt\" kann öðrum að þykjum mikilvægar upplýsingar. Sumir leita upplýsinga á einum miðli. Aðrir fara annað. Frelsi er gott ef því fylgir ábyrgð.
Eftir stendur að blaðamenn eiga á öllum tímum að veita hefðbundnum stofnunum samfélagsins aðhald. Almenningur veitir svo störfum blaðamanna aðhald og þannig er uppskriftin að góðu samfélagi.
Margt er að varast, en ótal tækifæri fylgja líka nýjum tímum. Sumar breytingar hafa aukið völd almennings. Því ber að fagna þótt aðrar ógni steðji að.