Margir hafa haft samband vegna pistils sem hér birtist fyrir nokkrum dögum þar sem minnst var á furðulegar áherslur Katrínar Jakobsdóttur. Hún virðist hafa meiri áhuga á að viðra sig upp við leiðtoga ESB-ríkja í stað þess að takast á við margháttuð vandamál í stjórnmálum hér heima. Þykir háttsemi hennar einkennast af flótta frá veruleikanum. Svo virðist sem Katrín sé að reyna að hitta og fá myndir af sér með sem flestum þekktum stjórnmálamönnum áður en hún lætur af embætti forsætisráðherra sem gæti orðið í sumar. Heimsókn hennar til Theresu May um síðustu mánaðarmót eru dæmi um þetta. Megintilgangur þeirrar heimsóknar virðist hafa verið að fá að spjalla við fráfarandi forsætisráðherra Breta í nokkrar mínútur – og fá mynd af sér með henni; tveir fráfarandi forsætisráðherrar saman á mynd!
Eftir að tveir þingmenn gengu nýlega í þingflokk Miðflokksins þannig að þingmannafjöldi flokksins varð níu þingmenn, hefur opnast möguleiki á nýjum þingmeirihluta Sjálfstæðisflokks, Framsóknar og Miðflokks sem teldi 33 þingmenn. Með því yrði Vinstri grænum ýtt út enda hefur Sjálfstæðisflokkurinn talið það algera neyðarráðstöfun að mynda ríkisstjórn með sósíalistum og það undir forsæti þeirra í fyrsta sinn í stjórnmálasögu Íslands. Það hefur sannarlega verið beiskur drykkur að drekka fyrir forystu Sjálfstæðisflokksins. En úrslit síðustu kosninga buðu ekki upp á marga kosti og myndun þessar stjórnar var neyðarúrræði.
Þegar þingflokkur Miðflokksins stækkaði óvænt, opnaðist á nýjan möguleika því núverandi ríkisstjórn hefur einungis 33 örugga þingmenn á bak við sig.
Vitað var að óhjákvæmilegt væri að bíða þar til kjarasamningar helstu aðila á vinnumarkaði hefðu verið leiddir til lykta vegna þess að launþegahreyfingin vill fara mjúkum höndum um Vinstri græna. Nú er búið að semja til meira en þriggja ára við flesta helstu hópa og þá er ekki eftir neinu að bíða. Ljúka þarf samningum við opinbera starfsmenn og eftir það er unnt að skipta VG út fyrir Miðflokkinn.
Þegar Vinstri grænum verður skipt út fyrir Miðflokkinn mun þetta gerast:
- Bjarni Benediktsson verður forsætisráðherra eins og sjálfstæðismönnum þykir sjálfsagt og eðlilegt þar sem flokkurinn hefur flesta þingmenn á bak við sig eða 16. Sjálfstæðismönnum hefur runnið það til rifja að þurfa að sitja í ríkisstjórn undir forsæti sósíalista. Og jafnvel hefur það farið enn meira fyrir brjóstið á þeim að þurfa að styðja Steingrím J. Sigfússon í embætti forseta Alþingis, manninn
sem stýrði aðförinni að fyrrum formanni flokksins þegar hann var einn dreginn fyrir Landsdóm. Margir geta aldrei fyrirgefið það.
- Vitrir og reyndir menn innan Framsóknarflokksins hafa unnið sleitulaust að því að koma á sáttum milli Framsóknar og Miðflokks. Þessir flokkar eru nær alveg eins en klofningurinn snýst um persónur manna sem voru samherjar en fóru hver sína leið. Þórólfur Gíslason, Guðni Ágústsson og Gunnlaugur Sigmundsson vinna að sáttum og munu ekki hætta fyrr en þær nást.
- Til þess að Miðflokkur og Framsókn geti setið saman í ríkisstjórn þar uppstilling embætta að vera klókindaleg. Nefnt hefur verið að Sigurður Ingi tæki við embætti forseta þingsins og Sigmundur Davíð yrði utanríkisráðherra sem þýddi að hann yrði mikið erlendis og þá færi minna fyrir honum hér heima á meðan ástandið væri að róast.
- Bent hefur verið á að Miðflokkurinn hafi látið öllum illum látum vegna þriðja orkupakkans sem hinir flokkarnir styðja. Menn hafa engar áhyggjur af því. Litið er á framgöngu Miðflokksmanna vegna þessa máls sem sviðsetningu og leið til að vekja á sér athygli. Þetta er ekki talið rista djúpt. Orkupakkinn verður afgreiddur frá Alþingi á næstu dögum. Eftir það mun málið gleymast fljótt.
- Sjálfstæðisflokkur, Framsókn og Miðflokkur eru með nánast sömu skoðun á mörgum mikilvægum málum. Þeir hafa sömu landbúnaðarstefnu, sömu sjávarútvegsstefnu, sömu afstöðu til gjaldmiðlamála, hafa ofurtrú á íslenskri krónu og gefa lítið fyrir alþjóðlegt samstarf eins og ESB. Þeir telja allir að Íslendingar séu sjálfum sér nógir um flest og aðhyllast sem mesta einangrun. Gárungarnir spyrja hvers vegna þessir þrír framsóknarflokkar sameinist ekki.
- Alþingi mun ljúka störfum fljótlega í júní, trúlega fyrir hvítasunni sem er 9. júní. Verði þá búið að semja við opinbera starfsmenn þyrfti ekki að líða á löngu þar til stjórnarskipti gætu farið fram.
Ekki þyrfti að koma á óvart þó skipting ráðuneyta og embætta í ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar gæti verið eitthvað á þessa leið:
Sjálfstæðisflokkur hefði embætti forsætisráðherra, fjármálaráðherra, dómsmálaráðherra, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og samgönguráðherra.
Framsókn hefði forseta Alþingis, ferðamála-iðnaðar-og nýsköpunarráðherra, menntamálaráðherra og félagsmálaráðherra.
Miðflokkur fengi í sinn hlut embætti utanríkisráðherra, heilbrigðisráðherra og umhverfisráðherra.
Guðlaugur Þór Þórðarsen hlyti þá að taka við embætti fjármálaráðherra og Lilja Alfreðsdóttir losnaði við menntamálaráðuneytið og fengi mun meira spennandi embætti ferðamála-iðnaðar-og nýsköpunarráðherra í sinn hlut.