Stefnt er að því að opna fjórar til fimm nýjar matvöruverslanir á þéttbýlum svæðum hér á landi á næsta ári. Verslanirnar munu fá nafnið Nær og er stefnt að opnun fyrstu verslunarinnar í Urriðaholti í Garðabæ skömmu eftir næstu áramót.
Greint er frá þessu í Markaðnum í Fréttablaðinu í dag.
Þórður Reynisson er framkvæmdastjóri Nær og eru aðrir stofnendur og meðeigendur þeir Þór Sigfússon, stofnandi Íslenska sjávarklasans og fyrstu mathallanna hérlendis, og Sara Björk Guðmundsdóttir, sölu- og markaðsstjóri verslunarinnar.
Í umfjöllun Markaðarins í dag kemur fram að verslanir Nær verði hvorki með starfsfólk í afgreiðslu né afgreiðslukassa heldur munu kaupin fara fram í gegnum snjallsíma.
„Fólk sýnir QR-kóða til að komast inn í læsta verslun, skannar inn vörur og leggur þær í poka og gengur að lokum frá kaupunum í gegnum símann,“ segir Þórður.
Starfsmenn verða til taks í verslununum en þeir munu fylla á hillur og annast þrif. Sara Björk segir að áhersla verði lögð á að hafa innkaupin eins auðveld og hægt er. „Þetta þarf að vera einfalt og þægilegt. Annað fælir frá viðskiptavini,“ segir hún.
„Við viljum færa verslanir aftur í hverfin,“ segir Þórður í umfjöllun Markaðarins. „Með því að nýta tæknina getum við opnað verslanir í þokkalega þéttbýlum hverfum sem eru opnar allan sólarhringinn. Auk þess höfum við áhuga á að opna verslanir á landsbyggðinni þar sem opnunartími matvöruverslana er ekki langur.“
Frétt Markaðarins í heild sinni.