VG missir fjóra þingmenn og Framsókn missir þrjá þingmenn ef marka má nýja skoðanakönnun Maskínu sem tekin var í lok september. Svarendur voru 879 þannig að um vel marktæka könnun er að ræða. Fylgi stjórnarflokkanna mælist nú samtals 40,9 prósent og fjöldi þingmanna þessara þriggja flokka er kominn niður í 27 samkvæmt könnuninni. Miðað við þetta er ríkisstjórnin kolfallin. Enn á ný gerist það að þeir flokkar sem eru með Sjálfstæðisflokki í ríkisstjórn tapa fylgi á kjörtímabilinu á meðan sjálfstæðismenn halda svipuðu fylgi frá kosningum. Kosningarnar 2009, þegar Samfylkingin bætti við sig, eru undantekning frá þessari reglu.
Viðreisn mælist nú með fjórtán prósent og níu þingmenn sem er meira en tvöflöldun frá kosningunum 2017. Píratar eru einnig á uppleið með 15,7 prósent og tíu þingmenn í stað fjögurra í síðustu kosningum. Samfylkingin er einnig í sókn. Mælist nú með 17,9 prósent og ellefu þingmenn í stað sjö þingmanna. Þessir þrír flokkar hafa bætt við sig samtals þrettán þingmönnum frá kosningunum 2017. Í því eru fólgin talsverð skilaboð þegar innan við eitt ár er til kosninga. Tíminn líður hratt.
Furðu vekur hve illa Framsókn og Miðflokkur koma út úr þessari könnun Maskínu. Framsókn fengi einungis 7,8 prósent atkvæða og fimm þingmenn í stað átta áður og Miðflokkurinn færi niður í 5,9 prósent og tapaði fjórum þingmönnum frá síðustu kosningum.