Allt yfirstandandi ár hefur fylgi ríkisstjórnarinnar verið á niðurleið. Stjórnin er löngu kolfallin og á því er engin breyting samkvæmt nýrri könnun Maskínu fyrir Vísi og tengda miðla. Vinstri stjórn Katrínar Jakobsdóttur er rúin trausti, ekki síst Katrín sjálf, en flokkur hennar mælist með 6 prósent fylgi og fengi einungis 4 þingmenn kjörna ef úrslit kosninga yrðu í samræmi við könnun Maskínu sem var gerð nú í nóvember. Vinstri græn fengju minnst fylgi þeirra flokka sem nú eiga fulltrúa á Alþingi. Hvergi á Vesturlöndum gæti það gerst að formaður í minnsta þingflokknum fengi að leiða ríkisstjórn með einungis 6 prósent á bak við sig. Það sýnir uppgjöf og geðleysi samstarfsflokka Vinstri grænna í ríkisstjórninni að þetta skuli vera látið viðgangast ennþá.
Þegar samstarf Sjálfstæðisflokksins, Framsóknar og Vinstri grænna hófst um núverandi vinstri stjórn í árslok 2017 mældist flokkur Katrínar Jakobsdóttur með 17 prósenta fylgi og hafði á bak við sig ellefu þingmenn. Í kosningunum 2021 fór fylgi flokksins niður í 12 prósent og þingmennirnir voru átta sem náðu kjöri. Samkvæmt þessari nýju könnun yrði fylgi VG einungis 6 prósent og fjöldi þingmanna fjórir. Nærri tveir þriðju hafa tapast af fylgi flokksins í þessu stjórnarsamstarfi. Það virðist því ætla að verða Vinstri grænum dýrkeypt að halda formanni sínum við völd í þessari vinstri stjórn. Þegar svo kjördagur rennur upp, hvort sem það verður á næsta eða þar næsta ári, er viðbúið að Vinstri græn fái engan mann kjörinn og þurrkist út af Alþingi Íslendinga. Það yrði þá marktækasti árangurinn af þessu misheppnaða stjórnarsamstarfi!
Samfylkingin er áfram langstærsti flokkurinn eins og verið hefur allt þetta ár samkvæmt könnuninni og fengi 26 prósenta fylgi og 18 menn kjörna. Sjálfstæðisflokkur vermir annað sætið með 17,9 prósenta fylgi og 12 menn kjörna. Tapaði 5 þingmönnum frá núverandi stöðu, trúlega 2 í Suðurkjördæmi, einum í Suðvestur, einum í Reykjavík og einum í Norðvesturkjördæmi.
Fylgi Sjálfstæðisflokksins samkvæmt könnun Maskínu er komið niður í um það bil helming af því sem hann hlaut í kosningunum 2007 þegar Geir Haarde var formaður flokksins.
Framsóknarflokkurinn fengi 10,4 prósenta fylgi og 7 menn kjörna en hafði 17,3 prósent í kosningunum 2021. Viðreisn mælist með 10,3 prósent sem gæfi flokknum 6 þingsæti í stað fimm í síðustu kosningum. Píratar fengju einnig 6 þingmenn kjörna, Miðflokkurinn næði 5 þingmönnum, Flokkur fólksins fjórum, Vinstri græn reka svo lestina af þeim sem nú eiga menn á þingi og fengju 4 menn kjörna í stað 8 þingmanna í kosningunum. Helmingur fylgis og þingmanna Vinstri grænna horfinn frá flokknum það sem af er kjörtímabilinu. Sósíalistaflokkurinn fengi 4,4 prósent sem gæti dugað flokknum til að ná einum kjördæmakjörnum manni inn á þing.
Samkvæmt þessu fengju núverandi stjórnarflokkar einungis 23 menn kjörna og stjórnin þannig kolfallin. Ekki er að sjá að náttúruhamfarirnar við Grindavík hafi aukið fylgi ríkisstjórnarflokkanna eins og oft gerist við slíkar aðstæður þegar ráðherrar eiga greiðan aðgang að fjölmiðlum til að miðla fjármunum úr ríkissjóði til kjósenda og þiggja gjarnan vinsældir að launum. Það virðist ekki hafa gerst núna. Ekki væri unnt að mynda tveggja flokka stjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokksins sem fengju samtals 30 menn kjörna.
Einn af þeim möguleikum sem gætu komið til greina við stjórnarmyndun er svokallað „Reykjavíkurmynstur“ þeirra flokka sem standa að meirihlutasamstarfi í höfuðborginni en það samstarf hefur gengið prýðilega. Ef til þess kæmi mætti vænta þess að Kristrún Frostadóttir myndi leiða slíka miðjuríkisstjórn í samstarfi við Framsóknarflokkinn, Viðreisn og Pírata með stuðningi 37 þingmanna ef niðurstaða kosninga yrði í samræmi við skoðanakönnun Maskínu frá í nóvember.
Komi til þessa samstarfs verður spennandi að sjá nýtt og ferskt fólk við ríkisstjórnarborðið í samstarfi við reynda stjórnmálamenn. Kristrún hlyti að taka við embætti forsætisráðherra, Sigurður Ingi myndi sóma sér vel sem fjármálaráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir yrði glæsilegur utanríkisráðherra og Halldóra Mogensen væri líkleg til að taka við mikilvægu ráðuneyti eins og til dæmis matvælaráðuneytinu sem mikill styr hefur staðið um. Miðað við framangreinda könnun mætti ætla að Samfylkingin fengi fimm ráðherra og hinir flokkarnir tvo hver. Vonandi myndu flokkarnir koma sér saman um að fækka um eitt ráðuneyti og einn ráðherra og senda með því skýr skilaboð um að brýnt sé að draga úr útþenslu báknsins – og byrja á toppnum.
- Ólafur Arnarson