Flestum okkar finnst kaffi í meira lagi gott – og komumst varla í gang á morgnana án þess að hesthúsa svo sem eins og lítra af vökvanum dökka og drjúga. Á venjulegu heimili eða eðlilegum vinnustað, fellur fyrir vikið alveg hellingur til af kaffikorgi. Mest af honum, sennilega næstum allt, endar í ruslinu. Það er synd og alveg skítlegt í sjálfu sér, því vart er hægt að hugsa sér betri áburð út í beðin á sumrin en einmitt þetta skilgetna afkvæmi móður jarðar sem kaffihratið er. Margir koma því vitaskuld fyrir í sérstökum flokkunarílátum í vaskaskápnum og afhenda hinni opinberu sorpu á endanum. Þeir hinir séðari eiga sér safnhaug, kannski 20 lítra kút úti á svölum sem er síviljugur að gleypa eins og annan skammt af korgi. Þessi fyrirhyggja kemur sér afar vel að vori, því þá er öllu saman dreift í beðin, sem fyrir vikið gleðja gróðurinn meira og betur en innfluttur áburður. Ef menn drekka bara te, er einmitt ráðið líka að safna því í dunkinn til sama gagns.