Árlegri könnun á notkun ljósabekkja á Íslandi er nýlega lokið. Könnunin er framkvæmd af Gallup fyrir hönd samstarfshóps embættis landlæknis, Geislavarna, húðlækna og Krabbameinsfélagsins.
Niðurstöðurnar sýndu að um 11% fullorðinna höfðu notað ljósabekki einu sinni eða oftar á síðustu 12 mánuðum, en ekki reyndist vera marktækur munur á ljósabekkjanotkuninni á milli ára.
Könnunin hefur verið framkvæmd árlega frá árinu 2004. Á þessu tímabili hefur dregið mjög verulega úr notkun ljósabekkja. Árið 2004 höfðu um 30% fullorðinna notað ljósabekki í einhverjum mæli síðustu 12 mánuði, en frá árinu 2013 hefur þessi tala verið um 10%.
Notkun ljósabekkja fylgir aukin hætta á húðkrabbameini og ráðleggja norrænu geislavarnastofnanirnar fólki frá því að nota ljósabekki í nýlegri yfirlýsingu. Fjallað er nánar um norrænu yfirlýsinguna hér.
Í skýrslu Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO) sem kom út 2017 segir að notkun ljósabekkja til sólbaða í fegrunarskyni undanfarna áratugi hafi valdið aukinni tíðni húðkrabbameina. Einnig hefur aldur þeirra sem fá slík krabbamein í fyrsta sinn lækkað. Notkun ljósabekkja er talin valda meira en 10 þúsund tilfellum af sortuæxlum árlega og meira en 450 þúsund tilfellum af öðrum húðkrabbameinum í Bandaríkjunum, Evrópu og Ástralíu samanlagt. Skaðleg áhrif ljósabekkja eru þannig vel þekkt og því er nauðsynlegt að takmarka notkun þeirra sem mest en 18 ára aldurstakmark á notkun ljósabekkja tók gildi á Íslandi í janúar 2011.
Birt í samstarfi við Heilsutorg. Smelltu hér til þess að lesa meira.