Þegar Linda Mogensen fékk úrskurð þess efnis að hún væri með ólæknandi kirtlakrabbamein fyrir þremur árum var hún staðráðin í að berjast við vágestinn á hennar eigin forsendum fremur en að þiggja hefðbundna læknismeðferð.
Frá þessari vegferð sinni greindi hún í þættinum Örlögunum á Hringbraut í gærkvöld, en Linda hefur allt sitt líf verið mjög andlega þenkjandi, trúuð og skyggn og segist sannfærð um að hugarástand fólks skipti heilsu þess miklu máli, ekki síst þegar það er að kljást við alvarleg meinvörp í líkamanum.
Hún vandar mataræði sitt eins og hún frekast getur, elur mein sitt ekki á sykri eða fæðir það á dýrapróteini og leggur fyrir vikið höfuðáherslu á grænmeti og ávexti. Þá hefur hún notað kannabisolíu frá því hún var skorin upp í kviðarholi og hluti skeifugarnar fjarlægður, en þar eð hún virkaði ekki alveg eins og vonast var eftir, byrjaði hún að neyta náttúrulyfjanna Omni one og Omni two sem eru hrein jurtameðul og innihalda frankensen-olíu, þá hina sömu og vitringarnir færðu Jesúbarninu og notuð hefur verið til heilsubóta um árþúsundir, en í Omni-blöndunni er virka efninu úr Túrmerik bætt við olíuna.
Linda kveðst sannfærð um að þessu náttúrlyf ásamt andlegri stillingu geri sér gott í baráttunni við krabbameinið. Henni hafi verið sagt þegar hún greindist með meinið að sjúklingar lifðu að jafnaði í fimm ár eftir að þeir hefðu greinst með það - og nú væru þrjú ár liðin í hennar tilviki, en hún væri fráleitt að kveðja, enda virtist hennar aðferð gegn vágestinum duga henni vel.
Örlögin eru frumsýnd öll mánudagskvöld á Hringbraut klukkan 20:30 - og eru endursýnd í dag og um næstu helgi.