Norskir til valda á íslandi?

Það hefur komið margoft fram í fjölmiðlum að svokallaður „þriðji orkupakki EES“ mun hafa lítil áhrif hér á landi. Hann felur hvorki í sér hækkun orkuverðs né framsal á yfirráðum yfir íslenskum orkuauðlindum til Evrópusambandsins. Af hverju er umræðan um þriðja orkupakkann þá svona mikil?  Svarið er að umræðan endurspeglar sífellt sterkari andstöðu íslenskra popúlista við aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu. Og svo er að sjá sem þeim sé beinlínis fjarstýrt af Norðmönnum, sem nota þá til að gæta sinna eigin hagsmuna. Skoðum það aðeins nánar. 

Samtök gegn EES: Heimssýn og „Frjálst land“

Ein birtingarmynd baráttunnar gegn EES eru samtökin Heimssýn sem eru sundurleit samtök andstæðinga samvinnu Evrópuríkjanna um fjórfrelsi eins innri markaðar álfunnar. Þar hafa safnast saman ýmsir forræðishyggjumenn yst á vinstri og hægri væng íslenskra stjórnmála. 

Önnur birtingarmynd í andstöðunni við EES eru Þjóðhyggjusamtökin „Frjálst land“ en þau hafa það eitt á stefnuskrá sinni að berjast gegn EES og öllu því sem Evrópskt er. Samtökin segjast „berjast fyrir frelsi landsins.“ Það skal gert með afnámi fjórfrelsisins svokallaða sem tryggt var með EES samningnum, þe. frjáls flæðis vöru, fólks, þjónustu og fjármagns á innri markaði EES.

„Frjálst land“ leggur sérstaka áherslu á að draga úr áhrifum erlendra afla á Íslandi. Á vef samtakanna er vitnað til þess að árið 1000 hafi erindrekar Noregskonungs borið fé frá honum á lögsögumann Íslands til þess að hann kæmi á „nýjum sið.“

Nýr siður Norskur

Það vekur því furðu hvað Norðmenn, meðal annars í gegnum ofangreind samtök, eru orðnir fyrirferðarmiklir í íslenskri stjórnmálaumræðu. Hingað hafa verið dregnir alls konar norskir sérfræðingar og prófessorar til að túlka hvað sé íslenskum hagsmunum fyrir bestu. Og þrátt fyrir að berjast fyrir einangrun heimafyrir virðast norsku samtökin „Nei til EU“ verða sífellt fyrirferðameiri í íslenskri pólitík. 

24. mars sl. sendi frú Kathrine Kleveland, þekkt norskt Miðflokksafturhald og leiðtogi „Nei til EU“, opinber tilmæli á íslenska skoðanabræður um að herða baráttuna gegn „þriðja orkupakkanum“. „Ef til vill verður það þegar allt kemur til alls okkar góða nágrannaland, Ísland, sem bjargar okkur,“ segir hún í bréfi sem samtökin „Frjálst land“ þýðir auðfúslega og birta á eigin vef. Miðflokksfrúin varar jafnframt við því að þeir sem henni séu ósammála „setji á einhvern máta einhvers konar stjórnmálalegan þrýsting á okkar íslensku bræðraþjóð og Alþingi. Hvorki norska né íslenska þjóðin munu líða það,“ segir Kleveland um leið og hún þrýstir sjálf á Íslendinga um að gera rétt samkvæmt Norskum hagsmunum.

Innfluttur pólitískur órói

Fréttablaðið birtir frétt 10. nóvember sl. að íslenskir þingmenn séu að fá símtöl frá Noregi þar sem þrýst á þá að hafna innleiðingu þriðja orkupakkans. „Vaxandi þrýstingur mun vera á þingmenn meirihlutans vegna málsins, sérstaklega á þingmenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks,“ greinir blaðið frá.

Björn Bjarnason fyrrum ráðherra og þekktur forystumaður í umræðu um utanríkismál Íslendinga var í viðtali á sjónvarpsstöðinni Hringbraut 26. nóvember. Þar var hann þungorður í garð þeirra stjórnmálamanna á Íslandi og Noregi sem vilja þyrla upp moldviðri um áhrif þriðja orkupakka ESB á íslenskt samfélag. „Þetta er að verulegu leyti innfluttur órói,“ sagði Björn og vísar þar til þrýstings Norðmanna vegna málsins.

Er eðlilegt að Norðmenn seilist svo ákaft til áhrifa í íslenskri pólitík? Er það eðlilegt að íslenskir þjóðernispopúlistar spili eftir tilskipunum frá Noregi? Finnst einhverjum eðlilegt að menn, sem reyna að höfða til íslenskrar þjóðerniskenndar spili þann leik eftir norskum fyrirmælum?

rtá